Menning

Maðurinn er gestur

Michael Ondaatje skáld og rithöfundur Er gestur á kanadísku menningarhátíðinni.
Michael Ondaatje skáld og rithöfundur Er gestur á kanadísku menningarhátíðinni.

Lokahnykkurinn á kanadísku menningarhátíðinni í Kópavogi er heimsókn skáldsins Michaels Ondaatje og samræður hans við Gunnþórunni Guðmundsdóttur bókmenntafræðing kl. 13 í dag í Salnum.

Á eftir spjalli þeirra verður kvikmynd eftir sögu hans, The English Patient, sýnd.

Ondaatje er mikilsvirtur höfundur meðal enskumælandi þjóða hann er fæddur árið 1943 á Ceylon, eins og Srí Lanka nefndist þá, alinn upp í London og hefur lengi búið í Kanada og telur sig Kanadamann. Í honum speglast brot heimsveldis Breta. Hann er fjölþreifinn á form frásagnar, reikar milli sögu og ljóðs, fer víða í leit að frásagnarefnum: The English Patient varð til úr munnmælum af fallinni vin í eyðimörk Sahara og tilraunum Evrópumanna til að hafa þar aðsetur, slitrum af sögum frá stríðsárunum á Ítalíu og Kaíró sem hann steypir saman í eina heillandi órofa heild.

Oft er deilt um hvort textar Ondaatje séu ljóð eða saga: The Collected Works of Billy the Kid frá 1970 vegur salt: dagbókarbrot, viðtalsbútar, ljóðrænar myndir, flugrit öllu er saman hrært: var það tilraun með skáldsöguna eða ljóðið. Hann hefur skrifað tvær hefðbundnar ljóðabækur, minningabók frá Ceylon, Running in the family og svo skáldsögur: Anil"s Ghost (2001), Coming through slaughter (1976) og In the Skin of the Lion ( 1987).

Ondaatje vinnur skipulega með þá hugmynd að maðurinn er aðeins gestur og flestir staðir honum í raun ókunnugir. Hann segir sögur sínar enda á opnun sagan haldi áfram í ímyndun lesanda. The English Patient færði Ondaatje alþjóðafrægð. Sjálfur hefur hann sagt að ekki hefði hann viljað lenda í því fyrr. Síðasta bók hans, Samtöl við Walter Murch, er sprottin úr umhverfi kvikmyndarinnar: munnlegar frásagnar, spjall um sögur og söguhætti. Líkt og mun gerast í dag milli höfundar og aðjúnkts í Salnum. Spjallið hefst kl. 13.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×