Bandaríska verslanakeðjan Wal-Mart, sem er ein sú stærsta í heimi, var í síðustu viku dæmd til að greiða fyrrverandi starfsfólki sínu í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum 78 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði rúmra 5,3 milljarða íslenskra króna, í skaðabætur. Starfsfólkið var þvingað til að vinna í frítíma sínum, svo sem í kaffi- og matarhléum, án þess að fá greitt fyrir það. Í dómsniðurstöðu sagði að fyrirtækið hefði brotið ríkislög með því að neita að greiða starfsfólkinu fyrir umframvinnuna.
Það voru hvorki fleiri né færri en 187.000 fyrrverandi starfsmenn Wal-Mart, sem unnu hjá fyrirtækinu frá því í mars árið 1997 til maí á þessu ári sem kærðu fyrirtækið. Fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins, sem fór fyrir þessu samstarfsfólki sínu í málinu, sagði fyrir réttinum að hún hefði unnið í matar- og kaffihléum og jafnvel eftir lokunartíma án þess að fá nokkuð greitt fyrir.
Svipað mál kom upp í Kaliforníu í Bandaríkjunum í desember í fyrra en þá var Wal-Mart dæmt til að greiða 116.000 fyrrverandi starfsmönnum fyrirtækisins 172 milljónir dala, jafnvirði tæpra 11,8 milljarða íslenskra króna, í bætur fyrir að neita þeim um matarhlé.