Tveir Litháar sitja í gæsluvarðhaldi eftir að alls rúm ellefu kíló af ætluðu amfetamíni fundust í tveimur bifreiðum mannanna við komu hingað til lands með ferjunni Norrænu á Seyðisfirði á fimmtudaginn.
Annar Litháinn hefur verið búsettur hér á landi um nokkurt skeið og var bifreiðin sem hann ók með íslenskum skráningarnúmerum.
Málið er í rannsókn fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík en enn hafa engir fleiri verið handteknir í tengslum við málið.
Fjórir Marokkóbúar voru handteknir síðastliðinn fimmtudag við komuna til landsins eftir að Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hafði afskipti af þeim vegna fíkniefnasmygls. Tveir þeirra reyndust hafa hass innvortis eftir gegnumlýsingu. Það mál er enn í rannsókn og fleiri hafa ekki verið handteknir viðriðnir málið.
Samkvæmt öruggum heimildum Fréttablaðsins er einn fjórmenninganna bróðir norður-afrísku konunnar sem kom ásamt manni og barni til landsins á dögunum. Í fjölskylduföðurnum, sem er frá Suður-Ameríku, fundust rúmlega sjö hundruð grömm af hassi í smokkum eftir gegnumlýsingu, sem hann hafði gleypt. Allt þetta fólk er búsett hér á landi og hefur ekki komið við sögu lögreglu áður.
Tengsl þessi gefa sterklega til kynna að hópur erlends fólks, búsetts hér á landi, hafi skipulagt innflutning á hassi.
Nú sitja tólf manns í gæsluvarðhaldi vegna fíkniefnamála.