Útvarpsstöðin XFM braut hugsanlega lög með því að gefa boðsmiða á myndina Thank You for Smoking og sígaretta fylgdi með miðanum. Skilyrði fyrir því að fá miðann var að reykja sígarettuna.
Jakobína Árnadóttir, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Lýðheilsustöð, segist líta málið alvarlegum augum. Leitað hafi verið álits lögfræðings sem benti á að samkvæmt tóbaksvarnarlögum væru hvers konar auglýsingar á tóbaki bannaðar. Álitaefni væri hins vegar hvort umrædd háttsemi útvarpsstöðvarinnar hafi falið í sér auglýsingu í skilningi laganna.