Boxerhundur réðst á tvö níu ára börn, stúlku og dreng, í Ásahverfi í Hafnarfirði í gær.
Hundurinn réðst á stúlkuna og beit í höndina svo að áverki hlaust af, þar að auki klóraði hann í bringu stúlkunnar svo að hún rispaðist. Því næst réðst hann á strákinn og beit í báða upphandleggi hans svo að sá á pilti. Fatnaður drengsins skemmdist í árásinni.
Þegar lögregla kom á vettvang gekk illa að klófesta hundinn enda var skepnan mjög æst. Það tókst að lokum og var hundurinn færður á lögreglustöðina.
Eigandi hundsins kom á stöðina, eftir að samband var haft við hann, með yfirlýsingu um að hundurinn yrði svæfður.