Fleiri geðfötluðum verður gert kleift að búa einir innan tíðar, segir Þór Þórarinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu. Breytingarnar koma í kjölfar úttektar sem gerð var á högum einstaklinga sem búa á geðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH). Í henni kom í ljós að 54 einstaklingar sem þar búa gætu búið annars staðar.
Þá verður þjónusta aukin við þá sem nota búsetuúrræði geðfatlaðra.
Í úttekt á búsetuúrræðum geðfatlaðra sem gerð var í fyrra kom í ljós að 54 einstaklingar sem búa á geðdeild LSH gætu notfært sér önnur búsetuúrræði. Þá eru nokkrir tugir til viðbótar í göngudeildarþjónustu á LSH en gætu verið í búsetu fyrir geðfatlaða. Samtals eru þetta 84 manns sem gætu nýtt sér búsetuúrræði fyrir geðfatlaða, að sögn Þórs Þórarinssonar, skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu.
Nú er nefnd að störfum við að kanna uppbyggingu í þágu geðfatlaðra en hún mun skila af sér niðurstöðum í haust og verða fyrstu búsetuúrræðin tilbúin á þessu ári.
Þór segir að andvirði Landsímans, um einn milljarður króna, sem ákveðið var að nota í þennan málaflokk, verði notað í stofnkostnað búsetuúrræðanna. Þá er talið að rekstarkostnaður verði 800 milljónir króna fyrir lok tímabilsins árið 2010 en stjórnvöld hafa ákveðið að tryggja rekstur búsetunnar næstu fimm árin.