Stúlka um tvítugt var flutt slösuð á Landspítalann í Fossvogi á öðrum tímanum í fyrrinótt eftir að bíl var ekið upp á hringtorg á gatnamótum Hringbrautar og Suðurgötu með þeim afleiðingum að hann hafnaði á tré.
Að sögn lögreglu ók ökumaðurinn, sem var um tvítugt líklega heldur geyst og missti stjórn á bílnum. Ekkert farþegasæti var frammi í bílnum og kastaðist stúlkan, sem sat í aftursætinu, á mælaborðið.
Hún hlaut talsverða höfuð-, andlits- og brjóstáverka, en að sögn læknis á Landspítalanum var hún aldrei í lífshættu.