Á fjórða tug mótmælenda settust á veginn að Hraunaveitu rétt norðan Eyjabakkasvæðisins og lokuðu honum þannig um hádegið í gær og færðu sig hvergi fyrr en lögregla hótaði þeim handtöku. Starfsmenn Arnarfells, sem er verktaki við Hraunaveitu og vinnur nú að því að reisa Ufsarstíflu á svæðinu, komust hvorki til né frá vinnusvæðinu frá hádegi þar til klukkan fjögur síðdegis.
Mótmælendurnir voru bæði erlendir sem íslenskir, mestmegnis ungt fólk. Í tilkynningu sem mótmælendurnir sendu frá sér í gær segir að þeir hafi komið saman á svæðinu til að vekja athygli á því að unnið væri að stíflu á Eyjabakkasvæðinu þrátt fyrir það að 45 þúsund Íslendingar hefðu skrifað undir áskorun til stjórnvalda um friðun Eyjabakka. Með þeim aðgerðum verði tilkomumiklir fossar í Jökulsá í Fljótsdal þurrkaðir upp.
Lögreglan á Seyðisfirði og björgunarsveit kom á staðinn og fylgdi fólkinu út af vinnusvæðinu. Fyrir utan það hversu þaulsætnir mótmælendurnir voru fóru mótmælin friðsamlega fram og var enginn handtekinn í kjölfar þeirra. Þetta er í fyrsta sinn á þessu ári sem lögregla þarf að hafa bein afskipti af mótmælendum.