„Sólin fer að leika stærra hlutverk í okkar lífi á næstunni,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur sem spáir góðu veðri um allt land næstu vikuna.
„Það sem er að gerast er að það er að byggjast upp mjög voldugt og afgerandi hæðarsvæði yfir landinu,“ segir Sigurður. Hann segist gera ráð fyrir björtu og hlýju veðri, allt að tuttugu stiga hita, þegar nær dragi helginni. „Þessi góðviðriskafli getur varað eitthvað fram í næstu viku. Hægt er að segja að sumarið sé komið, enda ekki seinna vænna, því það er stutt í verslunarmannahelgina,“ segir Sigurður.