Alþjóðlega vináttuhlaupið hófst á Íslandi í gær, en hlaupið er alþjóðlegt boðhlaup þar sem kyndill er borinn á milli hundrað landa af hátt í milljón manns. Hlaupið hófst í Portúgal 2. mars síðastliðinn, en boðskapurinn er að efla vináttu, skilning og umburðarlyndi.
Geir H. Haarde forsætisráðherra afhenti fyrsta hlauparanum kyndilinn við Höfða í gær og verður hlaupið með hann hringinn í kringum landið næstu átján daga, alls 1508 kílómetra. Hópur maraþonhlaupara frá mörgum löndum mun fylgja íslensku hlaupurunum.
Upphafsmaður hlaupsins er indverski heimspekingurinn og andlegi leiðtoginn Sri Chinmoy, en hlaupið var í fyrsta sinn árið 1987.