Formúlumógúllinn Bernie Ecclestone segist vera nærri samkomulagi við aðstandendur Belgíukappakstursins á Spa brautinni um að tryggja tilverurétt keppninnar, en mótshaldararnir höfðu verið í fjárhagserfiðleikum undanfarið. Skuldir mótshaldara höfðu hrannast upp í kjölfar dræmrar miðasölu.
Ecclestone og hans menn ákváðu að slaka aðeins á kröfum sínum í skuldir mótshaldara, því þeir vilja tryggja framtíð kappakstursins í Belgíu sem þeir kalla einn þann besta á mótaröðinni. Ecclestone ætlar sjálfur að sjá um kynningarmálin þar á næsta tímabili og freistar þess að auka áhorfendastrauminn á keppnina.