Fastir pennar

"Gott að eiga þessa menn að"

"Það er svo gott að eiga þessa menn að" segir Jónína Benediktsdóttir í tölvupósti til Jóns Geralds Sullenberger vorið 2002, þegar hún vann sem ötulast að því að fá hann til að leggja fram kæru á hendur Baugsfeðgum, Jóhannesi Jónssyni og Jóni Ásgeiri. Þetta má lesa í fréttum hér í blaðinu í dag. Í gær kom fram hvaða menn átt er við í þessu samhengi. Þeir eru Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins, Jón Steinar Gunnlaugsson núverandi hæstaréttardómari og Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hugsanlega hefur Jónína einnig í huga Davíð þann, sem ekki er nefndur föðurnafni í einum tölvupósta hennar, og hún vildi að hringdi í Sullenberger, en Davíð þessi kann að vera sama persónan og ritstjóri Morgunblaðsins kallar "ónefndan mann". Um þessa dularfullu persónu, sem virðist afar valdamikil, segir ritstjórinn enn fremur að tryggð Jóns Steinars við hana sé "innmúruð og ófrávíkjanleg". Ekki skal dregið í efa að fyrir ýmsa hefur verið gott að eiga ofangreinda menn að. En hinar nýju upplýsingar Fréttablaðsins um aðdraganda kæru í Baugsmálinu eru þó ekki til álitsauka fyrir þá einstaklinga sem koma við sögu. Ritstjóri annars stærsta blaðs þjóðarinnar og nánasti samstarfsmaður og ráðgjafi Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, reynast vera virkir gerendur í málinu, en ekki áhorfendur að því eins og þeir hafa látið að liggja. Blaðamaður á Morgunblaðinu var jafnvel látinn þýða skjal fyrir Sullenberger og ritstjóri blaðsins bað viðtakandann að eyða "fingraförum Morgunblaðsins" af því eins og hann komst að orði. Skýringar sem þeir hafa gefið eru ekki aðeins ótrúverðugar heldur á köflum fjarstæðukenndar og fullar af mótsögnum. Þannig segir til dæmis Kjartan Gunnarsson í yfirlýsingu sinni í gær að hann hafi setið fund með Styrmi og Jóni Steinari og hafi samtal þeirra "eingöngu og alfarið" snúist um "hæfi og hæfni" Jóns Steinars til að taka að sér málarekstur fyrir Sullenberger. Fram kemur aftur á móti í grein Styrmis í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins, sem út kom í gær, laugardag, að hann hafi bent Sullenberger á Jón Steinar vegna langrar reynslu af lögmannsstörfum hans fyrir Morgunblaðið. Hann þurfti því enga ráðgjöf. Efni tölvupóstanna vekur margvíslegar spurningar - sumar ansi óþægilegar - um þræði valda og áhrifa í íslensku þjóðfélagi. Það vekur einnig spurningar um hvers konar fjölmiðill eða stofnun Morgunblaðið er undir stjórn núverandi ritstjóra. Örlög Baugsmálsins í héraðsdómi hafa orðið til þess að veikja tiltrú almennings á mikilvægum stofnunum réttarkerfisins. Fólk er skiljanlega ráðvillt og á erfitt með að átta sig á því hvað raunverulega er að gerast. Þegar í ljós kemur svo að þjóðkunnir áhrifamenn með mikil sambönd í þjóðfélaginu sitja á leynifundum og leggja á ráðin um hvernig hægt sé að greiða fyrir saksókn í málinu er ekki furða að þeim fjölgi sem finnst að eitthvað kunni að vera hæft í ásökunum sakborninga um að málið í heild eigi sér pólitískar rætur. Það er að minnsta kosti greinilegt er að ekki er allt sem sýnist í Baugsmálinu.





×