Bíll valt við Ingólfshvol
Farþegi bílaleigubíls var fluttur á slysadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Reykjavík eftir að ökumaður bifreiðarinnar missti stjórn á henni í hálku á Suðurlandsvegi við Ingólfshvol, milli Hveragerði og Selfoss, rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun. Að sögn lögreglu á Selfossi voru tveir erlendir ferðamenn í bílnum, sem valt utan vegar. Meiðsli þeirra voru þó ekki talin stórvægileg. Selfosslögreglan segir nokkra hálku hafa verið á vegum snemma á morgnana síðustu daga og segir nokkuð um að ökumenn gæti sín ekki á henni.