Fjögur sjúkraflug frá Akureyri

Fjögur sjúkraflug voru farin frá Akureyri í gær. Sóttur var veikur maður til Grænlands og á Vopnafjörð þar sem slys hafði orðið. Þá var flogið með sjúkling frá Akureyri til Reykjavíkur þar sem hann þurfti að gangast undir aðgerð. Fjórða vélin var svo kölluð á Egilsstaði upp úr klukkan sex til að ná í sjúkling og flytja hann til Reykjavíkur. Í tilkynningu frá slökkviliði Akureyrar segir að aðeins sé til búnaður fyrir tvær sjúkraflugvélar og því hafi þurft að taka búnað úr einum sjúkrabíl slökkviliðsins í sjúkraflugið. Það sem af er þessu ári hefur verið farið í 201 sjúkraflug frá Akureyri, en á öllu síðasta ári voru sjúkraflugin 301.