
Innlent
Stakkst réttindalaus inn í garð

Sautján ára ökumaður en réttindalaus reyndi að hrista lögregluna af sér um hálfþrjúleytið í nótt með þeim afleiðingum að hann stakkst inn í garð á mótum Langholtsvegar og Skeiðarvogs og staðnæmdist harkalega á húsinu. Mikil mildi er að stórslys hlytist ekki af; líknarbelgur bjargaði vafalaust ökumanninum en bíllinn er gerónýtur og skemmdir urðu á húsinu. Fjögur ungmenni voru í bílnum og var eitt þeirra flutt á slysadeild. Ökumaðurinn hafði tekið bíl móður sinnar ófrjálsri hendi en hún mun vera erlendis. Alls voru þrír stöðvaðir fyrir ölvunarakstur í höfuðborginni í nótt og einhverjir minniháttar pústrar áttu sér stað en enginn slasaðist alvarlega.