Auðvelda framsal sakamanna

Framsal sakamanna milli norrænu ríkjanna verður auðveldað með samkomulagi dómsmálaráðherra landanna í dag. Þeir ætla að knýja á um skilvirkari lög sem leiði til þess að framsal dæmdra manna eða grunaðra taki skemmri tíma en hingað til. Framsalsreglur milli Norðurlandanna eru í dag einfaldari en á milli annarra landa og verður það nú gert enn einfaldara. Norrænu ráðherrarnir, að þeim íslenska undanskildum, vilja að ekki verði unnt að synja um framsal á eigin ríkisborgara á þeirri forsendu að verknaðurinn sem viðkomandi er grunaður um sé ekki refsiverður í heimaríki þeirra. Íslensk stjórnvöld munu ekki framselja íslenskan ríkisborgara nema verknaðurinn sem hann er grunaður um sé refsiverður samkvæmt íslenskum lögum.