Rannsókn stendur enn yfir

Rannsókn stendur enn yfir á máli þriggja ungra kínverskra stúlkna sem voru stöðvaðar við komu til landsins ásamt kínverskum manni og fylgdarmanni frá Singapúr. Að sögn Jóhanns R. Benediktssonar, sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, eru öll skref í málinu tekin í samráði við barnaverndaryfirvöld en í ljós kom við yfirheyrslur að stúlkurnar væru undir lögaldri. Stúlkunum hefur verið komið fyrir á gistiheimili í Reykjanesbæ í umsjá barnaverndaryfirvalda Sandgerðisbæjar. Fylgdarmaður þeirra hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27. maí vegna gruns um að hafa verið að aðstoða þær við að komast ólöglega til Bandaríkjanna.