Karlmaður á fertugsaldri er í haldi lögreglu grunaður um nauðgun á skemmtistaðnum Traffic í Keflavík í nótt. Atburðurinn var tilkynntur til lögreglu um sexleytið í morgun en staðurinn var þá enn opinn og einhverjir gestir þar inni. Starfsmenn staðarins grunaði þá að eitthvað óeðlilegt væri á ferðinni á einu salerni staðarins. Hurðin var svo brotin upp meðan lögregla var á leiðinni og maðurinn tekinn höndum þegar hún kom á staðinn. Maðurinn var yfirheyrður nú síðdegis en það var ekki hægt fyrr vegna ölvunar hans. Konan, sem er á þrítugsaldri, er hins vegar á neyðarmótttöku fyrir fórnarlömb nauðgana í Reykjavík. Lögreglan í Keflavík segir málið rannsakað bæði vegna gruns um nauðgun og eins vegna mögulegrar misneytingar, þ.e. ef konan hefur verið sofandi eða of ölvuð til að gera sér grein fyrir atburðarásinni.