Ók á lögregubíl á mikilli ferð

Lögreglubíll endaði úti í skurði eftir að ökumaður, sem grunaður er um ölvun, ók á mikilli ferð á hann þegar lögregla hugðist ná tali af manninum. Lögreglan á Akranesi var í gærkvöldi beðin um að svipast um eftir manni sem farið var að sakna og fann hún bílinn og hélt í átt að honum. Þegar lögreglubifreiðin nálgaðist ók maðurinn af stað á móti lögreglubifreiðinni og beint framan á hana á mikilli ferð, en bílarnir voru á þröngum malarvegi þar sem ekki er hægt að mætast. Ökumaður lögreglubifreiðarinnar reyndi að komast hjá árekstri með því að aka aftur á bak og út í vegarkant en það dugði ekki ti ogl kastaðist bíllinn því út af veginum og ofan í skurð. Ökumaður bifreiðarinnar var handtekinn á staðnum og er hann grunaður um ölvun við akstur sem fyrr segir. Annar lögreglumannanna meiddist eilítið við áreksturinn en bifreið mannsins er líklegast ónýt og lögreglubifreiðin mikið skemmd eftir áreksturinn.