Tímaritið GQ hefur sett fótboltastjörnuna David Beckham á lista yfir verst klæddu karlmenn heimsins. Beckham er yfirleitt á toppi best klæddu listanna og er tískutákn fyrir marga aðdáendur bæði enska landsliðsins og Real Madrid.
Tímaritið hefur kosið Beckham best klædda karlmanninn tvö ár í röð en nú virðist kappinn vera að missa tískuvitið. "Hann hefur ekki stíl, bara fullt af nýjum fötum," segir einn af dómurunum.
Sjónvarps- og útvarpsmaðurinn Jonathan Ross lenti í öðru sæti á meðan Simon Cowell fékk sjöunda sæti og sjálfur Robbie Williams það áttunda.
GQ valdi Rio Ferdinand best klædda karlmann veraldar sem fékk lof dómnefndar fyrir flottu, sérsaumuðu jakkafötin sín.

