Menning

Sefur vært eða horfir í kring

Sindri Gunnarsson nýtur þeirra þæginda að ferðast af og til í reiðhjólakerru. Foreldrar hans, Ingunn Dögg Sindradóttir og Gunnar Svanberg Skúlason, festu kaup á farartækinu undir lok síðasta sumars og eru ánægð með það. "Við sáum svona vagna víða í verslunum og fannst þeir svo sniðugir að við ákváðum að fá okkur einn fyrir frumburðinn," segir Ingunn Dögg. Hún tekur þó fram að belti séu fyrir tvö börn og vagninn eigi að bera 50 kíló. Það er því rúmt um Sindra litla sem nú er að verða ársgamall. Ingunn segir vagninn einkum hafa verið notaðan um helgar hingað til. "Þá förum við oft í hjólatúra öll saman þegar gott er veður, í fjölskyldu- og húsdýragarðinn eða í heimsóknir til vina og ættingja," segir hún en kveðst ekki hafa reynt vagninn í roki enda lítið gaman að hjóla þegar þannig viðrar. Að sögn Ingunnar Daggar er vagninn lagður saman þannig að sáralítið fer fyrir honum þegar hann er ekki í notkun og auðvelt er að breyta honum í venjulega barnakerru þegar gengið er um göturnar. "Það getur verið gott ef maður hjólar kannski í miðbæinn, leggur hjólinu og labbar svo um göturnar," bendir hún á að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×