Menning

Verndar umhverfið og budduna

"Vistakstur snýst fyrst og fremst um breytt hugarfar og aksturslag," segir Grétar H. Guðmundsson kennari í vistakstri. Hann segir þessa hugmyndafræði komna frá Finnum sem hafa mikið spáð í þessi mál og komu hingað til lands að kenna ökukennurum. "Ég hef helst tekið hópa frá fyrirtækjum og kennt þeim að aka vistvænt og eru þau flest fyrirtækin að spara um 10% til 15% í eldsneyti eftir námskeiðið, sem getur skipt gríðarlegu miklu máli í útgjöldum," segir Grétar. "Auk þess kallar aksturslagið á aukið umferðaröryggi," segir Grétar og neitar því að vistakstur sé á kostnað tíma því oft sparast jafnvel tími við vistakstur. "Flestir komast leiðar sinnar aðeins hraðar með vistakstri án þess þó að það sé verið að fara yfir hámarkshraða," segir Grétar og bætir við að þetta snúist ekki bara um að keyra hægar og kitla pinnann minna. "En eins og nafnið bendir til snýst þetta fyrst og fremst um umhverfið þar sem reynt er að takmarka mengun með meðvituðu aksturslagi," segir Grétar. Kennslan er bæði bókleg og verkleg, og tók Grétar blaðamann í smá kennsluakstur.Fyrst var ekinn einn hringur án nokkurra leiðbeininga frá kennara , svo aftur með leiðbeiningum frá kennara. Kennari les í tölur í sérstakri kennslutölvu sem mælir aksturslag bílstjóra og í þetta sinn minnkaði bensíneyðslan um heil 22% í seinni hringnum, þegar bílnum var ekið vistvænt, en jafnlangan tíma tók að aka hringinn í bæði skiptin. Nokkrar staðreyndir um vistakstur: Komið hefur í ljós að meðalhraði hækkar með hagkvæmari akstri eins og vistakstri. Aftanákeyrslur eru 30% allra umferðaróhappa í þéttbýli. Ef ekinn er vistakstur eru litlar líkur á aftanákeyrslum. Skaðlegu efnin í útblæstri eru eitraðar lofttegundir sem valda heilsufarsvandamálum. Með vistakstri dregur úr útblæstri. Hagkvæmasta leiðin til að hægja ferðina er að gíra niður og láta hreyfilinn draga úr ferð bílsins, ef vélin er með beina innspýtingu fellur eyðslan þegar í stað niður í núll.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×