
Innlent
Heimilið varð eldinum að bráð

„Við fjölskyldan vorum úti að borða þegar það var hringt í mig og sagt að það væri kviknað í,“ sagði Hjálmar Diego Haðarson niðurbrotinn á meðan hann horfði á heimili sitt við Rjúpufell brenna í gærkvöldi. Birgir Finnsson, sviðsstjóri útkallssviðs slökkviliðsins, segir að hringt hafi verið í slökkviliðið á áttunda tímanum í gærkvöldi og tilkynnt um eldinn. Allar stöðvar slökkviliðsins voru sendar á vettvang og þegar sú fyrsta kom á staðinn var eldurinn orðinn mikill. Eldurinn kom upp í endaíbúð í raðhúsalengju og tókst að koma í veg fyrir að hann dreifði sér í aðliggjandi íbúðir. Búið var að slökkva eldinn um klukkan hálf níu. „Við gengum strax í að slökkva eldinn og náðum tökum á honum nokkuð fljótt,“ segir Birgir en þá átti eftir að slökkva í glóðum og reykræsta. Eldsupptökin voru að öllum líkindum í eldhúsinu eða stofunni. Birgir segir ljóst að skemmdir á húsinu séu mjög miklar. „Við vorum nýbúin að taka íbúðina í gegn og mála hana alla,“ segir Hjálmar Diego en það sé þó huggun harmi gegn að íbúðin var mannlaus þegar eldurinn kom upp.