Logi Geirsson skoraði 9 mörk fyrir lið sitt Lemgo í 31-27 sigri á Nordhorn í þýska handboltanum í gær og varð markahæstur í liði sínu í leiknum. Guðjón Valur Sigurðsson átti einnig fínan leik þegar lið hans Essen bar sigurorð af Hamburg, 30-25 og skoraði 7 mörk. Alexander Petterson hjá Dusseldorf og Einar Hólmgeirsson hjá Grosswallstadt skoruðu fimm mörk hvor þegar lið þeirra mættust í gær og endaði leikurinn með jafntefli, 26-26. Jaliersky Garcia gerði þrjú mörk og Andrius Stelmokas, fyrrum línumaður Hauka, gerði fjögur fyrir lið Göppingen sem lagði lið Patreks Jóhannessonar 26-22 á útivelli. Patrekur skoraði eitt mark í leiknum. Þá gerði Róbert Sighvatsson tvö mörk fyrir Wetzlar í 27-27 jafntefli við Lubbecke.