Beiðni ekki enn borist
Beiðni um aðstoð íslensku lögreglunnar við rannsókn á fíkniefnamáli sem tveir Íslendingar sitja í gæsluvarðhaldi út af, hefur ekki enn borist íslenskum yfirvöldum. Að sögn Roberts Dütsch, upplýsingafulltrúa hjá tollinum í Hamborg, er beiðnin enn í þýska kerfinu hafi hún ekki borist til Íslands. Hjá dómsmálaráðuneytinu, alþjóðadeild ríkislögreglustjóra og fíkniefnadeildinni í Reykjavík fengust þær upplýsingar að beiðni um aðstoð við rannsókn málsins hafi ekki borist. Íslendingarnir tveir sem voru skipverjar á Hauki ÍS hafa setið í gæsluvarðhaldi í tæpan mánuð eftir að leit var gerð í skipinu í Bremerhaven. Í skipinu fundust þrjú og hálft kíló af kókaíni og þrjú og hálft kíló af hassi í klefum mannanna. Dütsch segist ekki gefa upp neinar frekari upplýsingar en fram eru komnar um gang rannsóknarinnar. Þó staðfesti hann að ekki hefðu fleiri verið handteknir vegna málsins.