Hefur Bush lært af mistökunum? 22. janúar 2005 00:01 Að líkindum hefur enginn Bandaríkjaforseta fyrr og síðar orðið jafn umdeildur og George W. Bush, sem á fimmtudaginn hóf seinna kjörtímabil sitt í embætti. Það er ekki aðeins á heimaslóðum sem persóna forsetans, hugmyndir, stefna og verk vekja sterk viðbrögð. Heimsbyggðin hefur aldrei fyrr haft jafn afdráttarlausa skoðun á leiðtoga Bandaríkjanna og síðustu fjögur ár - og sú skoðun virðist í yfirgnæfandi mæli neikvæð í garð hans og verka hans. Öllu öðru fremur er það Íraksstríðið sem þessu veldur. En framhjá hinu verður ekki horft að í kosningunum vestanhafs í nóvember vann forsetinn sannfærandi sigur og sama er að segja um bandamenn hans í Repúblikanaflokknum í báðum deildum Bandaríkjaþings. Hafi efi ríkt um lýðræðislegt umboð hans á fyrra kjörtímabilinu eru engar slíkar vangaveltur uppi nú. Það er ljóst að Bush er maður sem meirihluti bandarísku þjóðarinnar treystir til að stýra málum sínum. Líklegt er að ræðu Bush við embættistökuna hafi ekki verið beðið með minni eftirvæntingu utan Bandaríkjanna en innan þeirra. Svo virðist sem forsetinn hafi gert sér grein fyrir þessu og að sumu leyti virðist sem ræða hans hafi ekkert síður beinst að hlustendum úti í heimi en eigin þjóð. Um heim allan spurðu menn sig hvaða boðskap Bush mundi flytja, og hvaða tón hann mundi slá. Ræðan svaraði því ekki í einstökum atriðum en öll var áhersla forsetans á frelsið og þýðingu þess fyrir þjóðirnar. "Frelsið sem við njótum í okkar eigin landi veltur æ meira á því hvort frelsið nái fram að ganga í öðrum löndum," sagði hann og bætti við: "Allir þeir sem búa við harðstjórn og vonleysi geta treyst því að Bandaríkin munu ekki horfa framhjá kúguninni eða afsaka harðstjórana. Þegar fólk krefst frelsis stöndum við með því." Þetta eru fögur orð en því miður vitum við ekki hvað þau merkja í raun. Felst í þeim að Bandaríkin séu tilbúin í fleiri ævintýri í stíl við innrásina í Írak, svo sem innrás í Íran eins og getsakir hafa verið um að undanförnu? Eða hafa bandarísk stjórnvöld lært af mistökum undanfarinna ára og munu fara fram af meiri varkárni á alþjóðavettvangi næstu árin? Munu þau reyna að vinna að framgangi lýðræðis og frelsis eftir leiðum friðsamlegrar samvinnu, viðskipta og efnahagsaðstoðar fremur en að beita hernaðarmættinum? Þessum spurningum mun reynslan ein svara. En það er góðs viti að í ræðunni virtist Bush leggja áherslu á áframhaldandi sterkt samband við gamlar bandalagsþjóðir í Evrópu sem ekki hafa verið samstíga honum í Íraksmálinu. Sama er að segja um orð sem Condoleezza Rice, hinn nýi utanríkisráðherra, lét falla fyrir þingnefnd fyrr í vikunni, að hún vildi bæta samskiptin við bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu og auka samráð við þá. Bush forseti á ekki kost á endurkosningu að loknu því kjörtímabili sem nú er hafið. Eðli málsins samkvæmt mun mjög fara að draga úr áhrifum hans og raunverulegum völdum á þriðja ári tímabilsins, þegar undirbúningur næstu forsetakosninga hefst. Það er því í rauninni skammur tími sem hann hefur til stefnu vilji hann láta að sér kveða svo um muni. Vinir Bandaríkjanna um allan heim vona að hann hafi lært af dýrkeyptum mistökum fyrra tímabilsins og vilja treysta því að seinni hlutinn taki hinum fyrri fram á allan hátt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Magnússon Mest lesið Kyn og vægi líkamans Gunnar Snorri Árnason Skoðun Lokun Leo Seafood - Afleiðing tvöföldunar veiðigjalda Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Bakslag í skoðanafrelsi? Kári Allansson Skoðun Við getum öll stutt við lesskilning barna - Gleðilegan dag læsis Auður Soffía Björgvinsdóttir Skoðun Að gjamma á stóra grábjörninn getur haft afleiðingar! Davíð Bergmann Skoðun Vægið eftir sem áður dropi í hafið Hjörtur J Guðmundsson Skoðun Við erum ekki valdalausar. Við erum óbrjótandi Noorina Khalikyar Skoðun Allir geta hjálpað einhverjum Árni Sigurðsson Skoðun Getur þjóð orðið of rík? – Ádeila frá Noregi sem getur átt við um Ísland Júlíus Valsson Skoðun Umfjöllun Kastljóss Þorgrímur Sigmundsson Skoðun
Að líkindum hefur enginn Bandaríkjaforseta fyrr og síðar orðið jafn umdeildur og George W. Bush, sem á fimmtudaginn hóf seinna kjörtímabil sitt í embætti. Það er ekki aðeins á heimaslóðum sem persóna forsetans, hugmyndir, stefna og verk vekja sterk viðbrögð. Heimsbyggðin hefur aldrei fyrr haft jafn afdráttarlausa skoðun á leiðtoga Bandaríkjanna og síðustu fjögur ár - og sú skoðun virðist í yfirgnæfandi mæli neikvæð í garð hans og verka hans. Öllu öðru fremur er það Íraksstríðið sem þessu veldur. En framhjá hinu verður ekki horft að í kosningunum vestanhafs í nóvember vann forsetinn sannfærandi sigur og sama er að segja um bandamenn hans í Repúblikanaflokknum í báðum deildum Bandaríkjaþings. Hafi efi ríkt um lýðræðislegt umboð hans á fyrra kjörtímabilinu eru engar slíkar vangaveltur uppi nú. Það er ljóst að Bush er maður sem meirihluti bandarísku þjóðarinnar treystir til að stýra málum sínum. Líklegt er að ræðu Bush við embættistökuna hafi ekki verið beðið með minni eftirvæntingu utan Bandaríkjanna en innan þeirra. Svo virðist sem forsetinn hafi gert sér grein fyrir þessu og að sumu leyti virðist sem ræða hans hafi ekkert síður beinst að hlustendum úti í heimi en eigin þjóð. Um heim allan spurðu menn sig hvaða boðskap Bush mundi flytja, og hvaða tón hann mundi slá. Ræðan svaraði því ekki í einstökum atriðum en öll var áhersla forsetans á frelsið og þýðingu þess fyrir þjóðirnar. "Frelsið sem við njótum í okkar eigin landi veltur æ meira á því hvort frelsið nái fram að ganga í öðrum löndum," sagði hann og bætti við: "Allir þeir sem búa við harðstjórn og vonleysi geta treyst því að Bandaríkin munu ekki horfa framhjá kúguninni eða afsaka harðstjórana. Þegar fólk krefst frelsis stöndum við með því." Þetta eru fögur orð en því miður vitum við ekki hvað þau merkja í raun. Felst í þeim að Bandaríkin séu tilbúin í fleiri ævintýri í stíl við innrásina í Írak, svo sem innrás í Íran eins og getsakir hafa verið um að undanförnu? Eða hafa bandarísk stjórnvöld lært af mistökum undanfarinna ára og munu fara fram af meiri varkárni á alþjóðavettvangi næstu árin? Munu þau reyna að vinna að framgangi lýðræðis og frelsis eftir leiðum friðsamlegrar samvinnu, viðskipta og efnahagsaðstoðar fremur en að beita hernaðarmættinum? Þessum spurningum mun reynslan ein svara. En það er góðs viti að í ræðunni virtist Bush leggja áherslu á áframhaldandi sterkt samband við gamlar bandalagsþjóðir í Evrópu sem ekki hafa verið samstíga honum í Íraksmálinu. Sama er að segja um orð sem Condoleezza Rice, hinn nýi utanríkisráðherra, lét falla fyrir þingnefnd fyrr í vikunni, að hún vildi bæta samskiptin við bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu og auka samráð við þá. Bush forseti á ekki kost á endurkosningu að loknu því kjörtímabili sem nú er hafið. Eðli málsins samkvæmt mun mjög fara að draga úr áhrifum hans og raunverulegum völdum á þriðja ári tímabilsins, þegar undirbúningur næstu forsetakosninga hefst. Það er því í rauninni skammur tími sem hann hefur til stefnu vilji hann láta að sér kveða svo um muni. Vinir Bandaríkjanna um allan heim vona að hann hafi lært af dýrkeyptum mistökum fyrra tímabilsins og vilja treysta því að seinni hlutinn taki hinum fyrri fram á allan hátt.
Við getum öll stutt við lesskilning barna - Gleðilegan dag læsis Auður Soffía Björgvinsdóttir Skoðun
Við getum öll stutt við lesskilning barna - Gleðilegan dag læsis Auður Soffía Björgvinsdóttir Skoðun