Kristján Ragnar Kristjánsson og Árni Þór Vigfússon, kenndir við Skjá einn, hafa ásamt þremur öðrum mönnum verið ákærðir fyrir stórfelld skattalagabrot. Málið varðar vanskil á sjötta tug milljóna króna í vörslusköttum, virðisaukasköttum og staðgreiðslu. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Kristján og Árni voru dæmdir í tveggja ára fangelsi fyrir þátt sinn í Landssímamálinu. Skattamálið nú verður þingfest í Héraðsdómi á næstu dögum. Það nær yfir þriggja ára tímabil og varðar starfsemi í fimm fyrirtækjum.