Ímynduð samfélög 30. desember 2004 00:01 Þetta var ekki gott ár fyrir hugmyndina um fjölmenningarsamfélög. Morðið á Van Gogh í Hollandi og ólga í kringum pólitíska ofsatrúarmenn víða í Evrópu veldur nú sviptivindum um alla álfuna. Það dró án efa úr fylgi við þá hugmynd að evrópsk samfélög séu svo sterk og umburðarlynd að tilvist ólíkustu menningar innan þeirra geri lítið annað en að auðga þau. Umræðan um þetta einkenndist af stóryrðum og vanstillingu í mörgum ríkjum álfunnar. Það var eins og menn hefðu skyndilega fengið leyfi til að segja það sem þeim hafði lengi búið í brjósti. Núna um daginn hitti ég unga hollenska blaðakonu sem sagði mér að morðið á Van Gogh hefði breytt sínum skoðunum og skoðunum vina hennar á fjölmenningarsamfélaginu. En þetta stóð bara í eina eða tvær vikur, sagði hún, svo snerumst við aftur. Öll hugsunin um þetta, sagði hún, gerði okkur að lokum enn sannfærðari en áður um að hin fjölbreyttu samfélög Evrópu hafa mikla yfirburði yfir önnur samfélagsform heimsins. Kannski er þetta fólk ekki dæmigert og líklegt er að margir þeirra sem snerust í haust muni ekki snúast aftur í bráð. En hvers vegna skyldi mörgum þykja svona erfitt að búa í návígi við fólk með aðra menningu? Sumir segja að manninum líði best í litlum ættbálkasamfélögum þar sem menn þekkja hvern annan og eru svo líkir hverjir öðrum að sjálfsmyndir þeirra verða einfaldar og þægilegar. Ég hef stundum staðið sjálfan mig að því að hallast að þessu, síðast núna rétt um daginn þegar ég horfði á bedúína austur í Arabíu dansa og syngja í brúðkaupi af innlifun og gleði sem þeim einum er töm sem veit fyrir víst hver hann er. Ég hugsaði til þess að oftast þegar ég hef séð stóran hóp fólks deila svona einfaldri, djúpri og einlægri gleði hef ég verið staddur langt í burtu frá stórborgum heimsins. Og í þau skipti sem ég hef séð þetta gerast langt inni í stórri borg hef ég oftar en ekki verið staddur í mosku, kirkju eða hofi. Á slíkum stöðum og við þá iðkun sem þar fer fram hverfur stundum þörf manna fyrir aðgreiningu frá öðrum og fyrir persónulega tilfinningu um hverjir þeir telja sig vera. Sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að líklega felist svona gleði ekki í því að vita hver maður er, heldur í því að hafa litla þörf fyrir persónulega skoðun á því. Í flóknari samfélögum eru menn hins vegar sífellt rukkaðir um það með beinum eða óbeinum hætti hverjir þeir eru. Þar þekkir enginn neinn og allir sýnast ólíkir. Við þær aðstæður virðast menn á ófriðlegri tímum finna til ríkra þarfa til að búa til í kringum sig ímyndað samfélag líkra manna með sama guð og sama uppruna. Úr þannig viðleitni verður til hópur sem á saman um alla hluti en sker sig um leið frá öllum öðrum, eins konar ættbálkur í hafi öðru vísi fólks. Þörfin fyrir svona ættbálkamyndun er oft afleiðing átaka eða þá afleiðing af heimsku rasismans. Það er víða stutt í þá heimsku en átök samtímans eru hins vegar oftar en ekki innflutt. Maðurinn sem myrti Van Gogh var fæddur í Hollandi og mun hafa fallið vel inn í hollenskt samfélag þar til nýlega að hreyfing ofsatrúarmanna í Miðausturlöndum vakti athygli hans. Það var ekki reynslan af Evrópu eða Hollandi sem umturnaði honum, heldur hatrið sem dapurleg saga Miðausturlanda getur af sér. Flest kjarnaríki Evrópu hafa lengi þrifist á innflutningi fólks. Sagt er að meira en helmingur íbúa London eigi að minnsta kosti eina ömmu eða afa sem var útlendingur. Fjórðungur alls fólks í Frakklandi á eða átti útlenda ömmu eða afa. Allar mikilvægustu, skemmtilegustu og mest skapandi borgir Evrópu einkennast af fjölbreytileika í uppruna og menningu íbúanna og það sama má segja um Norður Ameríku. Deilur um innflytjendur eru líka harðari og sprottnar af augljósari rasisma í Kaupmannahöfn og öðrum borgum þar sem tiltölulega fáir útlendingar búa og eru nýlunda en í London eða öðrum stórborgum sem hafa lengi sótt styrk sinn í fjölbreytnina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Jón Ormur Halldórsson Mest lesið Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Konungar markaðarins Eiríkur Ingi Magnússon Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Þetta var ekki gott ár fyrir hugmyndina um fjölmenningarsamfélög. Morðið á Van Gogh í Hollandi og ólga í kringum pólitíska ofsatrúarmenn víða í Evrópu veldur nú sviptivindum um alla álfuna. Það dró án efa úr fylgi við þá hugmynd að evrópsk samfélög séu svo sterk og umburðarlynd að tilvist ólíkustu menningar innan þeirra geri lítið annað en að auðga þau. Umræðan um þetta einkenndist af stóryrðum og vanstillingu í mörgum ríkjum álfunnar. Það var eins og menn hefðu skyndilega fengið leyfi til að segja það sem þeim hafði lengi búið í brjósti. Núna um daginn hitti ég unga hollenska blaðakonu sem sagði mér að morðið á Van Gogh hefði breytt sínum skoðunum og skoðunum vina hennar á fjölmenningarsamfélaginu. En þetta stóð bara í eina eða tvær vikur, sagði hún, svo snerumst við aftur. Öll hugsunin um þetta, sagði hún, gerði okkur að lokum enn sannfærðari en áður um að hin fjölbreyttu samfélög Evrópu hafa mikla yfirburði yfir önnur samfélagsform heimsins. Kannski er þetta fólk ekki dæmigert og líklegt er að margir þeirra sem snerust í haust muni ekki snúast aftur í bráð. En hvers vegna skyldi mörgum þykja svona erfitt að búa í návígi við fólk með aðra menningu? Sumir segja að manninum líði best í litlum ættbálkasamfélögum þar sem menn þekkja hvern annan og eru svo líkir hverjir öðrum að sjálfsmyndir þeirra verða einfaldar og þægilegar. Ég hef stundum staðið sjálfan mig að því að hallast að þessu, síðast núna rétt um daginn þegar ég horfði á bedúína austur í Arabíu dansa og syngja í brúðkaupi af innlifun og gleði sem þeim einum er töm sem veit fyrir víst hver hann er. Ég hugsaði til þess að oftast þegar ég hef séð stóran hóp fólks deila svona einfaldri, djúpri og einlægri gleði hef ég verið staddur langt í burtu frá stórborgum heimsins. Og í þau skipti sem ég hef séð þetta gerast langt inni í stórri borg hef ég oftar en ekki verið staddur í mosku, kirkju eða hofi. Á slíkum stöðum og við þá iðkun sem þar fer fram hverfur stundum þörf manna fyrir aðgreiningu frá öðrum og fyrir persónulega tilfinningu um hverjir þeir telja sig vera. Sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að líklega felist svona gleði ekki í því að vita hver maður er, heldur í því að hafa litla þörf fyrir persónulega skoðun á því. Í flóknari samfélögum eru menn hins vegar sífellt rukkaðir um það með beinum eða óbeinum hætti hverjir þeir eru. Þar þekkir enginn neinn og allir sýnast ólíkir. Við þær aðstæður virðast menn á ófriðlegri tímum finna til ríkra þarfa til að búa til í kringum sig ímyndað samfélag líkra manna með sama guð og sama uppruna. Úr þannig viðleitni verður til hópur sem á saman um alla hluti en sker sig um leið frá öllum öðrum, eins konar ættbálkur í hafi öðru vísi fólks. Þörfin fyrir svona ættbálkamyndun er oft afleiðing átaka eða þá afleiðing af heimsku rasismans. Það er víða stutt í þá heimsku en átök samtímans eru hins vegar oftar en ekki innflutt. Maðurinn sem myrti Van Gogh var fæddur í Hollandi og mun hafa fallið vel inn í hollenskt samfélag þar til nýlega að hreyfing ofsatrúarmanna í Miðausturlöndum vakti athygli hans. Það var ekki reynslan af Evrópu eða Hollandi sem umturnaði honum, heldur hatrið sem dapurleg saga Miðausturlanda getur af sér. Flest kjarnaríki Evrópu hafa lengi þrifist á innflutningi fólks. Sagt er að meira en helmingur íbúa London eigi að minnsta kosti eina ömmu eða afa sem var útlendingur. Fjórðungur alls fólks í Frakklandi á eða átti útlenda ömmu eða afa. Allar mikilvægustu, skemmtilegustu og mest skapandi borgir Evrópu einkennast af fjölbreytileika í uppruna og menningu íbúanna og það sama má segja um Norður Ameríku. Deilur um innflytjendur eru líka harðari og sprottnar af augljósari rasisma í Kaupmannahöfn og öðrum borgum þar sem tiltölulega fáir útlendingar búa og eru nýlunda en í London eða öðrum stórborgum sem hafa lengi sótt styrk sinn í fjölbreytnina.