
Innlent
Árekstur strætisvagns og fólksbíls
Tveir ungir karlmenn slösuðust í hörðum árekstri strætisvagns og fólksbíls á mótum Miklubrautar og Grensásvegar laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Fólksbílnum var ekið til vesturs eftir Miklubraut en strætisvagninum til norðurs eftir Grensásvegi. Grunur leikur á að fólksbílnum hafi verið ekið inn á gatnamótin á móti rauðu ljósi þar sem hann skall á strætisvagninum. Vagninn hélt áfram yfir gatnamótin en nam staðar nokkru síðar. Mennirnir, sem báðir voru í fólksbílnum, voru fluttir rænulitlir á slysadeild en þó ekki alvarlega slasaðir. Enginn slasaðist í strætisvagninum. Fólksbíllinn er talinn gjörónýtur.