Menning

Algjör fatafrík

"Ég er mikil fatafrík og á því sjaldan einhverja uppáhalds flík lengi," segir Regína Ósk Óskarsdóttir söngkona. Regína heldur mikið upp á þessa kápu sem hún keypti í Vera Moda í Kaupmannahöfn. "Ég kol féll fyrir henni og hef gengið mikið í henni. Það er voðalega sjaldan sem ég held upp á eitthvað í svona langan tíma en þessi kápa er alveg frábær, fyrir utan hvað hún lengir mann," segir Regína brosandi. "Stígvélin keypti ég í GS-skóm og er mjög ánægð með þau. Þau eru svo þægileg og lengja mig. Maður er náttúrulega alltaf að finna leiðir til að láta mann líta út fyrir að vera hærri og grennri." Hún segist ekki fara mikið eftir tískunni heldur kaupi sér frekar það sem henni finnist flott hverju sinni. "Ég fíla samt þessa tísku sem er í gangi núna. Ég hef alltaf verið mjög glisgjörn og á endalaust mikið af skarti. Á meðan aðrir eru skófríkur þá er ég frekar eyrnalokkafrík og ég held að ég eigi um 55 pör af eyrnalokkum." Regína segist einnig hafa mjög gaman af öðrum fylgihlutum, svo sem töskum og nælum. "Ég er svo mikil kráka og elska allt sem glitrar og hef alltaf gert það," segir Regína sem er að fara að spila á jólatónleikum í Grafarvogskirkju annað kvöld ásamt Margréti Eir og fleiri söngkonum. Skoðaðu fleiri þekktar konur og uppáhalds fötin þeirra í tímaritinu Magasín sem fylgir DV í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×