Tekinn með 140 grömm af kókaíni

Maður á þrítugsaldri var handtekinn í Leifsstöð í fyrrakvöld. Hann var að koma frá Amsterdam og var grunaður um fíkniefnasmygl. Við leit fundust 140 grömm af kókaíni, falin í endaþarmi hans. Honum var sleppt að lokinni yfirheyrslu í gær þar sem hann hélt því statt og stöðugt fram að efnið væri til eigin neyslu og ekki lék grunur á að fleiri væru í vitorði með honum. Málið telst því upplýst og bíður maðurinn nú ákæru.