Þjófur flúði vegna öskurs

Það var ekki af ótta við þjófavarnakerfi eða að lögreglan væri rétt að koma sem þjófur lagði í ofboði á flótta af innbrotsstað í íbúðarhúsi í Grafarvogi í nótt, heldur skelfdist hann öskur sem húsfreyjan á bænum rak upp þegar hún varð hans var. Þá var hann kominn inn í forstofu og hafði kveikt þar ljós í rólegheitum þegar ósköpin dundu yfir. Hann hvarf í skyndingu út í kalda nóttina og þótt lögregla væri snögg á staðinn, og hafi leitað í öllu hverfinu, fannst hann ekki og er engu líkara en jörðin hafi gleypt hann.