Endurskin í Eyjafirði

Í vikunni var sérstakur endurskinsmerkjadagur í grunnskólum Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins. Af því tilefni veittu kennarar börnum fræðslu um notkun endurskinsmerkja. Samhliða fræðslu um endurskinsmerkjanotkun var um 4.000 endurskinsmerkjum dreift til allra grunnskólabarna á svæðinu, en sjávarútvegsfyrirtækið Samherji gaf merkin. Að sögn Þorsteins Péturssonar, forvarnarfulltrúa hjá Lögreglunni á Akureyri, tók Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, vel í málaleitan lögreglunnar um kaup á merkjunum. Hann afhenti merkin Ólafi Ásgeirssyni yfirlögregluþjóni á lögreglustöðinni á Akureyri síðdegis á miðvikudag.