Vond landkynning 21. október 2004 00:01 Um miðjan áttunda áratuginn blöskraði Bandaríkjastjórn svo hótanir og kröfugirni íslenskra stjórnvalda að hún íhugaði í alvöru að segja upp varnarsamningi landanna og lét jafnframt með leynd kanna hvort hægt væri að halda uppi vörnum og eftirliti á Norður-Atlantshafi án liðveislu Íslendinga. Var það mat embættismanna í Washington að Íslendingar væru svo ótraustir og kröfuharðir bandamenn að vera kynni að Bandaríkjamenn sættu sig ekki við fórnarkostnaðinn sem því fylgdi að halda þeim góðum. Þessar upplýsingar komu fram í fyrirlestri Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings á fundi Sagnfræðingafélags Íslands fyrr í vikunni eins og greint var frá hér í blaðinu á þriðjudaginn. Athyglisvert er að það var ekki vinstri stjórn sem að þessu sinni gekk svona fram af Bandaríkjamönnum heldur ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Yfirleitt hefur verið talið að sjálfstæðismenn vildu ekki nota varnarstöðina í Keflavík og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu sem fjárhagslega skiptimynt, svo sem í landhelgisstríðunum, en nýjar rannsóknir sagnfræðinga benda til þess að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekkert síður en leiðtogar vinstri flokkanna hagað sér með slíkum hætti. En stjórnmálamenn eru raunar ekki einir sekir um að rugla saman vörnum landsins og öðrum hagsmunum. Á sjötta áratugnum og á hinum áttunda var krafan um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu og brottför varnarliðsins borin fram á fjöldafundum sem þúsundir manna sóttu. Verkalýðshreyfingin tók undir og beitti samtakamætti sínum í þágu þessa málstaðar. Skoðanakannanir sýndu að þessi viðhorf áttu ríkan hljómgrunn með þjóðinni. Þorri Íslendinga sá ekkert athugavert við þennan hugsunarhátt. Og þetta er ekki bara sagnfræði. Þótt styðja megi það sterkum rökum að æskilegt sé að hafa bandarískt varnarlið á Íslandi fer ekki milli mála að áhyggjur manna, jafnt stjórnvalda sem stéttarsamtaka, um þessar mundir af brottför hermannanna ráðast ekkert síður af fjárhagslegum og atvinnulegum hagsmunum en öryggissjónarmiðum. Menn óttast meira atvinnubrest á Suðurnesjum en að Ísland sé óvarið. Það er umhugsarefni hve orð eins og "græðgi" og "frekja" koma oft fyrir í endurminningum og trúnaðarskjölum erlendra stjórnarerindreka sem dvalið hafa hér á landi eða átt skipti við íslensk stjórnvöld um öryggis- og varnarmál. Sama er að segja um samskipti þessara útlendinga við íslenska kaupsýslumenn og verktaka. Má til dæmis lesa um þetta í nýlegum sagnfræðiritum Vals Ingimundarsonar, sem rannsakað hefur samskipti Íslendinga við aðrar vestrænar þjóðir á árunum eftir stofnun lýðveldis. Þetta er sannarlega ekki góð landkynning. Það er okkur Íslendingum ekki til álitsauka á alþjóðavettvangi að láta þrönga fjárhagslega eiginhagsmuni ráða ferðinni í samskiptum við aðrar þjóðir. Þetta er efni sem allir landsmenn þurfa að ræða og íhuga og ekki láta sagnfræðingum einum eftir að velta fyrir sér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Magnússon Skoðanir Mest lesið Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hefur sala á rafbílum hrunið? Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun
Um miðjan áttunda áratuginn blöskraði Bandaríkjastjórn svo hótanir og kröfugirni íslenskra stjórnvalda að hún íhugaði í alvöru að segja upp varnarsamningi landanna og lét jafnframt með leynd kanna hvort hægt væri að halda uppi vörnum og eftirliti á Norður-Atlantshafi án liðveislu Íslendinga. Var það mat embættismanna í Washington að Íslendingar væru svo ótraustir og kröfuharðir bandamenn að vera kynni að Bandaríkjamenn sættu sig ekki við fórnarkostnaðinn sem því fylgdi að halda þeim góðum. Þessar upplýsingar komu fram í fyrirlestri Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings á fundi Sagnfræðingafélags Íslands fyrr í vikunni eins og greint var frá hér í blaðinu á þriðjudaginn. Athyglisvert er að það var ekki vinstri stjórn sem að þessu sinni gekk svona fram af Bandaríkjamönnum heldur ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Yfirleitt hefur verið talið að sjálfstæðismenn vildu ekki nota varnarstöðina í Keflavík og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu sem fjárhagslega skiptimynt, svo sem í landhelgisstríðunum, en nýjar rannsóknir sagnfræðinga benda til þess að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekkert síður en leiðtogar vinstri flokkanna hagað sér með slíkum hætti. En stjórnmálamenn eru raunar ekki einir sekir um að rugla saman vörnum landsins og öðrum hagsmunum. Á sjötta áratugnum og á hinum áttunda var krafan um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu og brottför varnarliðsins borin fram á fjöldafundum sem þúsundir manna sóttu. Verkalýðshreyfingin tók undir og beitti samtakamætti sínum í þágu þessa málstaðar. Skoðanakannanir sýndu að þessi viðhorf áttu ríkan hljómgrunn með þjóðinni. Þorri Íslendinga sá ekkert athugavert við þennan hugsunarhátt. Og þetta er ekki bara sagnfræði. Þótt styðja megi það sterkum rökum að æskilegt sé að hafa bandarískt varnarlið á Íslandi fer ekki milli mála að áhyggjur manna, jafnt stjórnvalda sem stéttarsamtaka, um þessar mundir af brottför hermannanna ráðast ekkert síður af fjárhagslegum og atvinnulegum hagsmunum en öryggissjónarmiðum. Menn óttast meira atvinnubrest á Suðurnesjum en að Ísland sé óvarið. Það er umhugsarefni hve orð eins og "græðgi" og "frekja" koma oft fyrir í endurminningum og trúnaðarskjölum erlendra stjórnarerindreka sem dvalið hafa hér á landi eða átt skipti við íslensk stjórnvöld um öryggis- og varnarmál. Sama er að segja um samskipti þessara útlendinga við íslenska kaupsýslumenn og verktaka. Má til dæmis lesa um þetta í nýlegum sagnfræðiritum Vals Ingimundarsonar, sem rannsakað hefur samskipti Íslendinga við aðrar vestrænar þjóðir á árunum eftir stofnun lýðveldis. Þetta er sannarlega ekki góð landkynning. Það er okkur Íslendingum ekki til álitsauka á alþjóðavettvangi að láta þrönga fjárhagslega eiginhagsmuni ráða ferðinni í samskiptum við aðrar þjóðir. Þetta er efni sem allir landsmenn þurfa að ræða og íhuga og ekki láta sagnfræðingum einum eftir að velta fyrir sér.