Að tala sundur eða saman 11. október 2004 00:01 Í Kristnihaldi undir jökli lætur Halldór Laxness séra Jón Prímus stinga upp á því að menn hætti að reyna að skiptast á orðum en fari heldur að blístra hver á annan. Slík er vantrú klerksins á Orðinu; svo vondaufur er hann orðinn um að mannlegt tungumál megni að flytja merkingu á milli manna, efla skilning, og að mennirnir séu færir um að eiga í sam-ræðu í stað þess að skiptast á ein-ræðum. Getur verið að þras-eiginleiki sé á einhvern hátt innbyggður í íslenska tungu? Kastljósþáttur á dögunum var óvenju átakanlegt dæmi um rótgróna íslenska samræðuhefð. Þar sátu tveir karlmenn og skiptust á að gnísta tönnum. Það verður að segjast þessum mönnum til hróss að þeir sýndu undraverða fimi í að skilja ekki hvor annan og tala í austur og vestur enda fóru þarna bersýnilega þaulvanir menn í að hlusta aldrei á viðmælanda sinn. Við fengum þarna óvænta innsýn í það hvers vegna sjómönnum og útvegsmönnum hefur nú um árabil verið um megn að semja um kaup og kjör: talsmaður útvegsmanna, Þorsteinn Már Baldvinsson og lögmaður sjómanna Ástráður Haraldsson fóru þarna með ræður eins og þeir væru á útifundi hvor í sínum landsfjórðungi en ekki hlið við hlið heima í stofu hjá almenningi. Að vísu má segja að Ástráður hafi reynt í byrjun að halda uppi málefnalegri umræðu um þau grundvallaratriði sem í húfi eru í Sólbaksdeilunni – og rakin voru skilmerkilega af Birgi Guðmundssyni hér í Fréttablaðinu í síðustu viku – þótt honum tækist að vísu bæði að segja okkur að hann hefði eiginlega ekki gefið sér tíma til að kynna sér deiluna eða látið svo lítið að leggja á minnið Sólbaksnafnið (sjálfum heyrðist mér í fréttum alltaf talað ýmist um "sólbaðsdeiluna" eða "sólpallsdeiluna"). Þorsteinn Már brást við öllu því sem Ástráður sagði með því að kalla hann lygara og lýsa yfir miklu áliti sínu á sjómönnunum um borð í Sólbaki, sem ekki hefðu verið kúgaðir til hlýðni. Vitanlega ekki: málið snýst heldur ekki um það hvort þeir voru kúgaðir heldur hitt að útgerðarmaðurinn komst í aðstöðu til þess að kúga þá; þegar sjómennirnir njóta ekki verndar samtakamáttarins er útgerðarmaðurinn kominn með öll ráð þeirra í hendi sér og allt komið undir innræti hans – og duttlungum. Þetta var hins vegar aldrei rætt í Kastljósþættinum vegna þess að viðmælendurnir voru svo önnum kafnir við að snúa út úr orðum hvor annars. Í lok þáttarins ljómuðu stjórnendur af hamingju yfir velheppnuðum þætti og gott ef viðmælendur voru ekki albúnir að fallast í faðma yfir gagnvæmu skilningsleysi sínu. Dálæti Íslendinga á fólki að rífast er raunar slíkt að fyrsti alíslenski sjónvarpsþátturinn sem búinn var til var Á öndverðum meiði þar sem Gunnar G. Schram sat á milli tveggja kalla að rífast. Þetta þótti geysigóð skemmtun og ég man að við strákarnir í Karfavoginum lékum þennan þátt stundum milli Roy og Rogers leikja. Og enn er umfjöllun um alls kyns málefni að mestu látin einskorðast við þetta form og þess gætt að enginn sé nokkru nær í lok þáttarins: beri til dæmis samkynhneigð á góma er ævinlega kvaddur til bókstafstrúarmaður úr Kópavogi sem lifir samkvæmt Móselögum og til að ræða gróðurhúsaáhrif var löngum fenginn piltur af Vef-þjóðviljanum sem var andvígur hugtakinu. Stundum sér maður útlenska þætti um fyrirbæri í heiminum þar sem leitast er við að fræða okkur en slíkt væri með öllu óhugsandi í íslenskri fjölmiðlun. Til dæmis þarf danska sjónvarpsmenn til að fræða okkur Íslendinga um fiskveiðar. Framboðið af fólki að rífast eykst hins vegar stöðugt og í gær var hleypt af stokkunum þætti á Skjá einum þar sem fjórar manneskjur rífast ýmist hver við aðra eða valda viðmælendur sem kunnir eru að því að vera hressir í rifrildum og "gefa ekki sitt eftir". Þessu rifrildi öllu mun ætlað að keppa við þjóðmálaþátt Egils Helgasonar en hætt er við að það takist ekki því Egill hefur þann sjaldgæfa og eftirsóknarverða eiginleika fjölmiðlamanns að standa utan við flokkadrætti. Í Karphúsinu hafa menn nú setið í á þriðju viku og ræktað ágreining sinn af undraverðu þolgæði á meðan börn og unglingar fá ekki notið lögbundins réttar síns til náms. Þegar kvartað er yfir því að skólabókum sé haldið frá börnum svara talsmenn verkfallsins með fyndni um Dúbba dúfu (sem er prýðileg bók lesin af sex ára krökkum og þarflaust að gera gys að) og hvatningum til foreldra að vera duglegri að tala við börn sín: svara með öðrum orðum út í hött. Kannski að kennarar og samningamenn sveitarfélaga ættu að fara að blístra hver á annan? Eða kannski að reyna að hætta að tala sundur og fara að tala saman. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Kæru smiðir, hárgreiðslufólk og píparar! Víðir Reynisson Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Við erum heit, græn og orkumikil – gerum kröfur um sjálfbærni, nýsköpun og betri nýtingu auðlinda! Halla Hrund Logadóttir ,Fida Abu Libdeh Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Kvíðakynslóðin Daðey Albertsdóttir,Silja Björk Egilsdóttir Skoðun Hvenær á að skattleggja lífeyrissjóðsgreiðslur? Ögmundur Jónasson Skoðun Einhver sú besta forvörn sem við eigum Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson Skoðun Vilja miklu stærra bákn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Í Kristnihaldi undir jökli lætur Halldór Laxness séra Jón Prímus stinga upp á því að menn hætti að reyna að skiptast á orðum en fari heldur að blístra hver á annan. Slík er vantrú klerksins á Orðinu; svo vondaufur er hann orðinn um að mannlegt tungumál megni að flytja merkingu á milli manna, efla skilning, og að mennirnir séu færir um að eiga í sam-ræðu í stað þess að skiptast á ein-ræðum. Getur verið að þras-eiginleiki sé á einhvern hátt innbyggður í íslenska tungu? Kastljósþáttur á dögunum var óvenju átakanlegt dæmi um rótgróna íslenska samræðuhefð. Þar sátu tveir karlmenn og skiptust á að gnísta tönnum. Það verður að segjast þessum mönnum til hróss að þeir sýndu undraverða fimi í að skilja ekki hvor annan og tala í austur og vestur enda fóru þarna bersýnilega þaulvanir menn í að hlusta aldrei á viðmælanda sinn. Við fengum þarna óvænta innsýn í það hvers vegna sjómönnum og útvegsmönnum hefur nú um árabil verið um megn að semja um kaup og kjör: talsmaður útvegsmanna, Þorsteinn Már Baldvinsson og lögmaður sjómanna Ástráður Haraldsson fóru þarna með ræður eins og þeir væru á útifundi hvor í sínum landsfjórðungi en ekki hlið við hlið heima í stofu hjá almenningi. Að vísu má segja að Ástráður hafi reynt í byrjun að halda uppi málefnalegri umræðu um þau grundvallaratriði sem í húfi eru í Sólbaksdeilunni – og rakin voru skilmerkilega af Birgi Guðmundssyni hér í Fréttablaðinu í síðustu viku – þótt honum tækist að vísu bæði að segja okkur að hann hefði eiginlega ekki gefið sér tíma til að kynna sér deiluna eða látið svo lítið að leggja á minnið Sólbaksnafnið (sjálfum heyrðist mér í fréttum alltaf talað ýmist um "sólbaðsdeiluna" eða "sólpallsdeiluna"). Þorsteinn Már brást við öllu því sem Ástráður sagði með því að kalla hann lygara og lýsa yfir miklu áliti sínu á sjómönnunum um borð í Sólbaki, sem ekki hefðu verið kúgaðir til hlýðni. Vitanlega ekki: málið snýst heldur ekki um það hvort þeir voru kúgaðir heldur hitt að útgerðarmaðurinn komst í aðstöðu til þess að kúga þá; þegar sjómennirnir njóta ekki verndar samtakamáttarins er útgerðarmaðurinn kominn með öll ráð þeirra í hendi sér og allt komið undir innræti hans – og duttlungum. Þetta var hins vegar aldrei rætt í Kastljósþættinum vegna þess að viðmælendurnir voru svo önnum kafnir við að snúa út úr orðum hvor annars. Í lok þáttarins ljómuðu stjórnendur af hamingju yfir velheppnuðum þætti og gott ef viðmælendur voru ekki albúnir að fallast í faðma yfir gagnvæmu skilningsleysi sínu. Dálæti Íslendinga á fólki að rífast er raunar slíkt að fyrsti alíslenski sjónvarpsþátturinn sem búinn var til var Á öndverðum meiði þar sem Gunnar G. Schram sat á milli tveggja kalla að rífast. Þetta þótti geysigóð skemmtun og ég man að við strákarnir í Karfavoginum lékum þennan þátt stundum milli Roy og Rogers leikja. Og enn er umfjöllun um alls kyns málefni að mestu látin einskorðast við þetta form og þess gætt að enginn sé nokkru nær í lok þáttarins: beri til dæmis samkynhneigð á góma er ævinlega kvaddur til bókstafstrúarmaður úr Kópavogi sem lifir samkvæmt Móselögum og til að ræða gróðurhúsaáhrif var löngum fenginn piltur af Vef-þjóðviljanum sem var andvígur hugtakinu. Stundum sér maður útlenska þætti um fyrirbæri í heiminum þar sem leitast er við að fræða okkur en slíkt væri með öllu óhugsandi í íslenskri fjölmiðlun. Til dæmis þarf danska sjónvarpsmenn til að fræða okkur Íslendinga um fiskveiðar. Framboðið af fólki að rífast eykst hins vegar stöðugt og í gær var hleypt af stokkunum þætti á Skjá einum þar sem fjórar manneskjur rífast ýmist hver við aðra eða valda viðmælendur sem kunnir eru að því að vera hressir í rifrildum og "gefa ekki sitt eftir". Þessu rifrildi öllu mun ætlað að keppa við þjóðmálaþátt Egils Helgasonar en hætt er við að það takist ekki því Egill hefur þann sjaldgæfa og eftirsóknarverða eiginleika fjölmiðlamanns að standa utan við flokkadrætti. Í Karphúsinu hafa menn nú setið í á þriðju viku og ræktað ágreining sinn af undraverðu þolgæði á meðan börn og unglingar fá ekki notið lögbundins réttar síns til náms. Þegar kvartað er yfir því að skólabókum sé haldið frá börnum svara talsmenn verkfallsins með fyndni um Dúbba dúfu (sem er prýðileg bók lesin af sex ára krökkum og þarflaust að gera gys að) og hvatningum til foreldra að vera duglegri að tala við börn sín: svara með öðrum orðum út í hött. Kannski að kennarar og samningamenn sveitarfélaga ættu að fara að blístra hver á annan? Eða kannski að reyna að hætta að tala sundur og fara að tala saman.
Við erum heit, græn og orkumikil – gerum kröfur um sjálfbærni, nýsköpun og betri nýtingu auðlinda! Halla Hrund Logadóttir ,Fida Abu Libdeh Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Við erum heit, græn og orkumikil – gerum kröfur um sjálfbærni, nýsköpun og betri nýtingu auðlinda! Halla Hrund Logadóttir ,Fida Abu Libdeh Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun