Hver erum við? 29. september 2004 00:01 Helst vildi ég að Halldór Ásgrímsson fengi hundrað rólega hveitibrauðsdaga til að ná þeim tökum á sínu nýja embætti sem hann hafði á því gamla. Halldór reyndist nefnilega dugmikill og athafnasamur utanríkisráherra sem sýndi bæði útsjónarsemi við hagsmunagæslu fyrir Íslendinga og ábyrgðartilfinningu gagnvart skyldum okkar í heiminum. Auðvitað snýst starfið öðru fremur um hagsmunagæslu, það gerir það hjá öllum ríkjum heims. Halldór reyndi hins vegar umfram forvera sína í starfi að breyta stöðu okkar í alþjóðakerfinu úr því að vera laumufarþegar. Fyrir þetta hefur hann ekki fengið miklar þakkir enda dýrara að borga fargjald en að ferðast frítt. Við erum í fyrsta sinn farin að leggja fram umtalsvert fé til þróunarmála þótt við gerum enn minna en flest þróuð ríki. Það eitt ætti að gefa Halldóri sess í sögunni. Afstaða okkar til þessara mála var til háborinnar skammar um áratuga skeið. Við tökum líka virkari þátt í starfi alþjóðastofnana en við höfum áður gert. Þótt Halldór hafi þannig reynst mjög nýtur utanríkisráðherra ættu menn að hafna bón hans um að menn hætti að ræða um innrás Bandaríkjanna í Írak og stuðning íslenskra stjórnvalda við hana. Til þess er málið of stórt. Það snýst um grundvallaratriði í lífi smáþjóðar ekki síður en um Írak. Eins og spurninguna um hvort lög eða hernaðarmáttur eigi að ráða í alþjóðakerfinu. Skipti öryggisráðið og aðalritari SÞ engu í þessu máli? Er það afstaða vopnlausrar smáþjóðar? Erum við á móti því sem Kofi Annan stendur fyrir og með því sem George Bush stendur fyrir? Er Kofi Annan fulltrúi úreltra hugmynda um lög, rétt og samvinnu en George Bush maðurinn sem við eigum að standa með? Málið snýst líka um það hvort við eigum nokkuð erindi í alþjóðlegt samstarf á öðrum forsendum en hagsmunagæslu af þrengsta tegund. Þegar kom að spurnigu um stríð eða frið, skipti þá mestu máli fyrir okkur sem þjóð að reyna að nota Íraksstríðið til að fá Bandaríkjamenn til að staðsetja fjórar orustuþotur í Keflavík? Viljum við fara í öryggisráð SÞ til að afla okkur fleiri tækifæra til að gera Bandaríkjunum svo til geðs að við fáum áfram að hafa þessar fjórar þotur? Er þetta grunnurinn að hugsun okkar um stríð og frið, lög og rétt, ábyrgð þjóða og hlutverk okkar í heiminum? Nú er ég alveg viss um að svo er ekki í huga Halldórs Ásgrímssonar. Ekki að ég þekki manninn vel persónulega, það geri ég ekki, en verk hans hafa sýnt aðra hugsun um skyldur okkar og hlutverk. Og þess vegna vekur stuðningur okkar við stríðið í Írak upp spurningar um hvernig utanríkisstefna íslendinga verður til. Hvers konar upplýsingar eru notaðar? Hvers konar þekkingar er aflað? Hvaða hugsjónir koma til álita? Það sérkennilega við hörmungarnar í Írak er að ekkert í atburðarásinni hefur komið þeim á óvart sem eitthvað þekktu til þessa lands. Engum með lágmarksþekkingu datt í hug að tengja Saddam Hussain við alþjóðleg hryðjuverk sem var þó ástæða innrásarinnar. Skálmöldin í Írak var líka algerlega fyrirsjáanleg. Ég hélt því sjálfur ítrekað fram í íslenskum fjölmiðlum fyrir innrásina að hún myndi valda hörmungum af nákvæmlega því tagi sem við erum nú daglega vitni að. Til að sjá þetta fyrir þurfti hvorki skarpskyggni né yfirburðaþekkingu enda er ég enginn sérfræðingur í málefnum Íraks. Ég hafði hins vegar fyrir því að lesa það sem helstu fræðimenn sögðu og fór svo í stutta heimsókn til Persaflóa til viðræðna við fólk. Ekki flókið mál. Þótt enginn sjái nákvæma atburðarás fyrir má fullyrða að ekkert af því sem gerst hefur í Írak að undanförnu hafi þurft að koma nokkrum manni á óvart sem hafði fyrir því að kynna sér aðstæður. Nema kannski það eitt að Írakar, einir þjóða í öllum þessum heimshluta, áttu engin efnavopn. Ástandið í Írak er ekki furðuleg niðurstaða af undarlegum tilviljunum, heldur beinlínis fyrirsjáanleg afleiðing ákvarðana sem teknar voru fyrir hálfu öðru ári síðan á fölskum forsendum og vegna vísvitandi blekkinga manna með pólitíska hagsmuni. Reyndi íslenska ríkið ekki að afla sér upplýsinga frá öðrum en CIA og Pentagon? Hvernig var ákvörðunin tekin? Hvaða upplýsingar, hvaða hugsjónir og hvaða hagsmunir komu við sögu? Þessar spurningar eru ekki dónaleg hnýsni í prívatmál. Þær snúast um það hver við erum sem þjóð og hver við viljum vera. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Jón Ormur Halldórsson Mest lesið Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Konungar markaðarins Eiríkur Ingi Magnússon Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Helst vildi ég að Halldór Ásgrímsson fengi hundrað rólega hveitibrauðsdaga til að ná þeim tökum á sínu nýja embætti sem hann hafði á því gamla. Halldór reyndist nefnilega dugmikill og athafnasamur utanríkisráherra sem sýndi bæði útsjónarsemi við hagsmunagæslu fyrir Íslendinga og ábyrgðartilfinningu gagnvart skyldum okkar í heiminum. Auðvitað snýst starfið öðru fremur um hagsmunagæslu, það gerir það hjá öllum ríkjum heims. Halldór reyndi hins vegar umfram forvera sína í starfi að breyta stöðu okkar í alþjóðakerfinu úr því að vera laumufarþegar. Fyrir þetta hefur hann ekki fengið miklar þakkir enda dýrara að borga fargjald en að ferðast frítt. Við erum í fyrsta sinn farin að leggja fram umtalsvert fé til þróunarmála þótt við gerum enn minna en flest þróuð ríki. Það eitt ætti að gefa Halldóri sess í sögunni. Afstaða okkar til þessara mála var til háborinnar skammar um áratuga skeið. Við tökum líka virkari þátt í starfi alþjóðastofnana en við höfum áður gert. Þótt Halldór hafi þannig reynst mjög nýtur utanríkisráðherra ættu menn að hafna bón hans um að menn hætti að ræða um innrás Bandaríkjanna í Írak og stuðning íslenskra stjórnvalda við hana. Til þess er málið of stórt. Það snýst um grundvallaratriði í lífi smáþjóðar ekki síður en um Írak. Eins og spurninguna um hvort lög eða hernaðarmáttur eigi að ráða í alþjóðakerfinu. Skipti öryggisráðið og aðalritari SÞ engu í þessu máli? Er það afstaða vopnlausrar smáþjóðar? Erum við á móti því sem Kofi Annan stendur fyrir og með því sem George Bush stendur fyrir? Er Kofi Annan fulltrúi úreltra hugmynda um lög, rétt og samvinnu en George Bush maðurinn sem við eigum að standa með? Málið snýst líka um það hvort við eigum nokkuð erindi í alþjóðlegt samstarf á öðrum forsendum en hagsmunagæslu af þrengsta tegund. Þegar kom að spurnigu um stríð eða frið, skipti þá mestu máli fyrir okkur sem þjóð að reyna að nota Íraksstríðið til að fá Bandaríkjamenn til að staðsetja fjórar orustuþotur í Keflavík? Viljum við fara í öryggisráð SÞ til að afla okkur fleiri tækifæra til að gera Bandaríkjunum svo til geðs að við fáum áfram að hafa þessar fjórar þotur? Er þetta grunnurinn að hugsun okkar um stríð og frið, lög og rétt, ábyrgð þjóða og hlutverk okkar í heiminum? Nú er ég alveg viss um að svo er ekki í huga Halldórs Ásgrímssonar. Ekki að ég þekki manninn vel persónulega, það geri ég ekki, en verk hans hafa sýnt aðra hugsun um skyldur okkar og hlutverk. Og þess vegna vekur stuðningur okkar við stríðið í Írak upp spurningar um hvernig utanríkisstefna íslendinga verður til. Hvers konar upplýsingar eru notaðar? Hvers konar þekkingar er aflað? Hvaða hugsjónir koma til álita? Það sérkennilega við hörmungarnar í Írak er að ekkert í atburðarásinni hefur komið þeim á óvart sem eitthvað þekktu til þessa lands. Engum með lágmarksþekkingu datt í hug að tengja Saddam Hussain við alþjóðleg hryðjuverk sem var þó ástæða innrásarinnar. Skálmöldin í Írak var líka algerlega fyrirsjáanleg. Ég hélt því sjálfur ítrekað fram í íslenskum fjölmiðlum fyrir innrásina að hún myndi valda hörmungum af nákvæmlega því tagi sem við erum nú daglega vitni að. Til að sjá þetta fyrir þurfti hvorki skarpskyggni né yfirburðaþekkingu enda er ég enginn sérfræðingur í málefnum Íraks. Ég hafði hins vegar fyrir því að lesa það sem helstu fræðimenn sögðu og fór svo í stutta heimsókn til Persaflóa til viðræðna við fólk. Ekki flókið mál. Þótt enginn sjái nákvæma atburðarás fyrir má fullyrða að ekkert af því sem gerst hefur í Írak að undanförnu hafi þurft að koma nokkrum manni á óvart sem hafði fyrir því að kynna sér aðstæður. Nema kannski það eitt að Írakar, einir þjóða í öllum þessum heimshluta, áttu engin efnavopn. Ástandið í Írak er ekki furðuleg niðurstaða af undarlegum tilviljunum, heldur beinlínis fyrirsjáanleg afleiðing ákvarðana sem teknar voru fyrir hálfu öðru ári síðan á fölskum forsendum og vegna vísvitandi blekkinga manna með pólitíska hagsmuni. Reyndi íslenska ríkið ekki að afla sér upplýsinga frá öðrum en CIA og Pentagon? Hvernig var ákvörðunin tekin? Hvaða upplýsingar, hvaða hugsjónir og hvaða hagsmunir komu við sögu? Þessar spurningar eru ekki dónaleg hnýsni í prívatmál. Þær snúast um það hver við erum sem þjóð og hver við viljum vera.