Höfum við efni á þessu? 1. september 2004 00:01 Ég fékk frekar óvinsamleg viðbrögð við grein sem ég skrifaði í síðustu viku um aðferðir við val á ráðherrum til setu í ríkisstjórn Íslands. Viðbrögðin skýrast raunar að nokkru leyti af þeirri staðreynd að hluti greinarinnar hafði fallið niður, líklega vegna einhverra mistaka í tölvuvinnslu. Í greininni ræddi ég tillögu Vilmundar heitins Gylfasonar um skipan ríkisstjórna en hún gerði ráð fyrir því að alþingismaður sem tekur við ráðherraembætti segi af sér þingmennsku. Hinn óvinsamlegi tölvupóstur fjallaði um meinta tilhneigingu manna af mínu sauðahúsi, og með mitt lunderni, til að gera lítið úr alþingismönnum, og um þann skilning bréfritara á máli mínu að nú vildi ég meina þingmönnum að sitja í ríkisstjórn eins og þeir væru manna óhæfastir til slíkra verka. Hugmyndin um að ráðherrar séu ekki jafnframt alþingismenn snýst hins vegar ekki um að reisa skorður við því að þingmenn geti orðið ráðherrar. Margir þingmenn eru vafalítið ágætlega færir um að gegna ráðherraembættum, þótt þeir séu það greinilega ekki allir. Þeir yrðu hins vegar, samkvæmt hugmynd Vilmundar, að velja þarna á milli og að segja af sér þingmennsku ef þeir tækju við ráðherradómi. Ósk um að menn velji á milli þessara ólíku starfa er ekki sprottinn af vilja til að gera veg þings og þingmanna lítinn. Þvert á móti. Hún snýst um að skipuleggja hlutina með þeim hætti að vegsemd og virðing Alþingis fái vaxið. Forsenda þess er hins vegar sú að þingmenn ríkisstjórnarflokka finni til nægilegs sjálfstæðis frá framkvæmdavaldinu til að þeir geti veitt því raunverulegt aðhald. Um leið snýst hugmyndin um að val á ráðherrum taki frekar mið af þeim viðfangsefnum sem ráðherrar ættu að sinna í okkar opna og gróskumikla samfélagi en af stöðunni í einhverri skrítinni og persónulegri valdabaráttu á milli einstaklinga í stjórnmálaflokki. Sú aðferð sem nú er notuð við val á fólki í ríkisstjórn á Íslandi hefur nokkra mjög alvarlega ókosti. Af þeim sökum eru ríkisstjórnir á Íslandi oft undarlega illa mannaðar, enda er lítið samhengi á milli þeirra hæfileika sem menn þurfa að hafa til að komast í ríkisstjórn og þeirra hæfileika sem nýtast best til skynsamlegra og ábyrgra úrlausna á þeim viðfangsefnum sem ráðherrar ættu að sinna. Dettur til dæmis einhverjum í hug í alvöru að færasti einstaklingurinn til að gegna ráðherraembætti í okkar alþjóðavædda samfélagi sé sá sem sigrar í innanflokksprófkjöri í einhverju kjördæmi og lendir síðan réttu megin í einhverri undarlegri og persónulegri valdapólitík innan eigin flokks? Þessi aðferð við val á æðstu stjórnendum fyrir íslenska ríkið hefur kostað okkur talsvert á síðustu áratugum. Annar ókostur við íslensku aðferðina við val ráðherrum er að hún hefur með öðru stuðlað að því að Alþingi er of veikt og ósjálfstætt til ráða með sómasamlegum hætti við það meginhlutverk sitt að veita framkvæmdavaldinu aðhald. Lítil von er líka til þess að þingið veiti framkvæmdavaldinu virkt og gagnsætt aðhald á meðan þingflokkar eru annars vegar skipaðir ráðherrum og hins vegar fólki sem virðist líta svo á að þingmennska sé fyrst og fremst stökkpallur í ráðherraembætti. Menn gætu aukið veg og virðingu bæði þings og ríkisstjórnar með því að reisa á milli þeirra garð af því tagi sem Vilmundur vildi búa til með þessari einföldu aðferð. Þingið yrði sjálfstæðara og ríkisstjórnir betur mannaðar. Þótt ráðherraefni þyrftu að segja af sér þingmennsku myndu vafalítið margir ráðherrar koma áfram úr hópi þingmanna. Þeir yrðu hins vegar valdir á öðrum forsendum en nú virðast tíðkast, því að með brotthvarfi þeirra úr þingflokki myndu þeir ekki lengur nýtast í þeim átökum einstaklinga og fylkinga sem einkenna nú störf þingflokka. En hver á þá að velja ráðherrarana? Líklega færi best á því að leiðtogar stjórnarflokka réðu enn meira um skipan ríkisstjórna en þeir gera nú. Ef þeir gætu bæði valið menn til gegna ráðherraembættum og hefðu um leið vald til að víkja ráðherrum úr ríkisstjórn myndi ábyrgð forustumanna ríkisstjórnarflokka vera gerð skýrari. Þar með yrði ábyrgð flokkanna á ráðherrum og framkvæmd stjórnarstefnu greinilegri og virkari. Einn af göllum íslenska lýðræðisins er einmitt sá að oft hefur skort á að ábyrgð flokka og forustumanna gagnvart kjósendum sé nægilega skýr og gagnsæ. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Jón Ormur Halldórsson Mest lesið Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Konungar markaðarins Eiríkur Ingi Magnússon Skoðun Tré og flugvélar Jón Hörður Jónsson Skoðun Fátækt er eins og ryksuga sem sogar upp peninginn þinn, frítíma og sjálfstraust Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hefur sala á rafbílum hrunið? Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson Skoðun
Ég fékk frekar óvinsamleg viðbrögð við grein sem ég skrifaði í síðustu viku um aðferðir við val á ráðherrum til setu í ríkisstjórn Íslands. Viðbrögðin skýrast raunar að nokkru leyti af þeirri staðreynd að hluti greinarinnar hafði fallið niður, líklega vegna einhverra mistaka í tölvuvinnslu. Í greininni ræddi ég tillögu Vilmundar heitins Gylfasonar um skipan ríkisstjórna en hún gerði ráð fyrir því að alþingismaður sem tekur við ráðherraembætti segi af sér þingmennsku. Hinn óvinsamlegi tölvupóstur fjallaði um meinta tilhneigingu manna af mínu sauðahúsi, og með mitt lunderni, til að gera lítið úr alþingismönnum, og um þann skilning bréfritara á máli mínu að nú vildi ég meina þingmönnum að sitja í ríkisstjórn eins og þeir væru manna óhæfastir til slíkra verka. Hugmyndin um að ráðherrar séu ekki jafnframt alþingismenn snýst hins vegar ekki um að reisa skorður við því að þingmenn geti orðið ráðherrar. Margir þingmenn eru vafalítið ágætlega færir um að gegna ráðherraembættum, þótt þeir séu það greinilega ekki allir. Þeir yrðu hins vegar, samkvæmt hugmynd Vilmundar, að velja þarna á milli og að segja af sér þingmennsku ef þeir tækju við ráðherradómi. Ósk um að menn velji á milli þessara ólíku starfa er ekki sprottinn af vilja til að gera veg þings og þingmanna lítinn. Þvert á móti. Hún snýst um að skipuleggja hlutina með þeim hætti að vegsemd og virðing Alþingis fái vaxið. Forsenda þess er hins vegar sú að þingmenn ríkisstjórnarflokka finni til nægilegs sjálfstæðis frá framkvæmdavaldinu til að þeir geti veitt því raunverulegt aðhald. Um leið snýst hugmyndin um að val á ráðherrum taki frekar mið af þeim viðfangsefnum sem ráðherrar ættu að sinna í okkar opna og gróskumikla samfélagi en af stöðunni í einhverri skrítinni og persónulegri valdabaráttu á milli einstaklinga í stjórnmálaflokki. Sú aðferð sem nú er notuð við val á fólki í ríkisstjórn á Íslandi hefur nokkra mjög alvarlega ókosti. Af þeim sökum eru ríkisstjórnir á Íslandi oft undarlega illa mannaðar, enda er lítið samhengi á milli þeirra hæfileika sem menn þurfa að hafa til að komast í ríkisstjórn og þeirra hæfileika sem nýtast best til skynsamlegra og ábyrgra úrlausna á þeim viðfangsefnum sem ráðherrar ættu að sinna. Dettur til dæmis einhverjum í hug í alvöru að færasti einstaklingurinn til að gegna ráðherraembætti í okkar alþjóðavædda samfélagi sé sá sem sigrar í innanflokksprófkjöri í einhverju kjördæmi og lendir síðan réttu megin í einhverri undarlegri og persónulegri valdapólitík innan eigin flokks? Þessi aðferð við val á æðstu stjórnendum fyrir íslenska ríkið hefur kostað okkur talsvert á síðustu áratugum. Annar ókostur við íslensku aðferðina við val ráðherrum er að hún hefur með öðru stuðlað að því að Alþingi er of veikt og ósjálfstætt til ráða með sómasamlegum hætti við það meginhlutverk sitt að veita framkvæmdavaldinu aðhald. Lítil von er líka til þess að þingið veiti framkvæmdavaldinu virkt og gagnsætt aðhald á meðan þingflokkar eru annars vegar skipaðir ráðherrum og hins vegar fólki sem virðist líta svo á að þingmennska sé fyrst og fremst stökkpallur í ráðherraembætti. Menn gætu aukið veg og virðingu bæði þings og ríkisstjórnar með því að reisa á milli þeirra garð af því tagi sem Vilmundur vildi búa til með þessari einföldu aðferð. Þingið yrði sjálfstæðara og ríkisstjórnir betur mannaðar. Þótt ráðherraefni þyrftu að segja af sér þingmennsku myndu vafalítið margir ráðherrar koma áfram úr hópi þingmanna. Þeir yrðu hins vegar valdir á öðrum forsendum en nú virðast tíðkast, því að með brotthvarfi þeirra úr þingflokki myndu þeir ekki lengur nýtast í þeim átökum einstaklinga og fylkinga sem einkenna nú störf þingflokka. En hver á þá að velja ráðherrarana? Líklega færi best á því að leiðtogar stjórnarflokka réðu enn meira um skipan ríkisstjórna en þeir gera nú. Ef þeir gætu bæði valið menn til gegna ráðherraembættum og hefðu um leið vald til að víkja ráðherrum úr ríkisstjórn myndi ábyrgð forustumanna ríkisstjórnarflokka vera gerð skýrari. Þar með yrði ábyrgð flokkanna á ráðherrum og framkvæmd stjórnarstefnu greinilegri og virkari. Einn af göllum íslenska lýðræðisins er einmitt sá að oft hefur skort á að ábyrgð flokka og forustumanna gagnvart kjósendum sé nægilega skýr og gagnsæ.
Fátækt er eins og ryksuga sem sogar upp peninginn þinn, frítíma og sjálfstraust Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun
Fátækt er eins og ryksuga sem sogar upp peninginn þinn, frítíma og sjálfstraust Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun