Menning

Heitustu haustferðirnar

"Heitustu haustferðirnar hjá okkur eru til Krakár í Póllandi og Jamaica," segir Guðbjörg Sandholt hjá Heimsferðum. "Svo er Barcelona alltaf vinsæl líka á haustin, ásamt Prag, Búdapest og Kanarí.

Guðbjörg segir Heimsferðir hafa byrjað með Krakárferðirnar í vor og þær hafi slegið í gegn þannig að ákveðið hafi verið að halda þeim áfram. "Það er beint leiguflug þangað," bendir hún á. "Við verðum með fimm ferðir þangað í október og nóvember, þá fyrstu 21. október. Hægt er að fara helgi, heila viku eða bara þrjá daga. Hitinn þar er svona 15-17 gráður eins og í Búdapest en það fer enginn til þessara borga til að njóta sólar eða sérstaks veðurs því þar er svo mikið að upplifa og skoða. Margar kynnisferðir í boði." Hún er beðin að segja okkur aðeins meira um Jamaíkaferðirnar. "Já, við settum fyrst eina ferð á dagskrá þann 11. nóvember og hún seldist upp, einn, tveir og fjórir. Þá bættum við annarri við 2. nóvember og það eru enn fáein sæti laus í hana. Þannig að væntanlega verða 400 manns sem storma þangað í haust."

Hjá Úrvali-Útsýn eru borgaferðirnar og Kanarí vinsælastar. Dublin, Edinborg og Búdapest eru þar efstar á blaði. Svo eru sérferðir til Sikileyjar og Kúbu sem alltaf standa fyrir sínu. Ferðir til Trier í Þýskalandi í lok nóvember hafa verið geysivinsælar síðustu ár. Þangað sækir fólk í jólamarkaðina og í slökun á aðventunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×