Höfundur Þjóðarþráttarinnar 14. júní 2004 00:01 Andstaðan við fjölmiðlalög Davíðs Oddssonar á sér margháttaðar málefnalegar ástæður enda er í þeim vegið að mikilsverðum réttindum manna í nútímasamfélagi og reynt að endurheimta þá fábreytni og stjórn á fjölmiðlamarkaði sem forsætisráðherrann virðist þakka mikið fylgi á árum áður - en þetta sást meðal annars á því að þegar þeir fáu stjórnarþingmenn sem ómökuðu sig í ræðustól alþingis í umræðum um málið reyndu að láta sér detta eitthvað í hug til rökstuðnings málinu bentu þeir einatt á það að fjölmiðlar í eigu tiltekinna aðila birtu fréttir sem andsnúnar væru landstjórninni - og því bæri að banna viðkomandi að eiga fjölmiðla. En þótt málefnalegar ástæður andstöðunnar séu mikilvægar verður því ekki neitað að þar virðist líka miklu valda afstaða fólks til Davíðs Oddssonar og stjórnarhátta hans. Eins og málum er komið í samskiptum hans og þeirra sem hann útnefnir í óvinasveit sína hverju sinni er manni til efs að honum hefði auðnast að koma illindalaust í gegnum þingið frumvarpi um öxulþunga á þjóðvegum. Bæði er seta hans á valdastóli orðin þvílík að andstæðingar rífa hár sitt og klæði í hvert sinn sem hann lyftir fingri, og eins virðist manni stundum engu líkara en að samband hans og andstæðinga hans sé orðið óheilbrigt í hæsta máta. Engu er nefnilega líkara en að maðurinn hafi einhvers konar nautn af hinu eilífa þrasi; þrífist jafnvel ágætlega í þessu andrúmslofti rifrildis, beiskju og andúðar, sem óneitanlega hlýtur að vera farið að þreyta almenning ósegjanlega. Það þarf ekki að ganga í neinar grafgötur um að Davíð nýtur valdsins, en hann virðist í æ ríkara mæli þurfa að upplifa sitt vald sem valdaleysi annarra. Þegar þannig háttar verður valdið neikvætt afl, niðurrifsafl. Ég held að ýmislegt í núverandi vandræðum okkar eigi ef til vill rót í þessari skynjun á valdinu, þessari þörf fyrir að finna vald sitt með því að hafa sigur eftir harðvítug átök - fremur en að sjá vald sitt birtast í góðum verkum. Þetta birtist á ýmsan hátt: til dæmis er sláandi sú þörf Davíðs og klíku hans að skilgreina fyrir aðra hver þeirra afstaða sé til ýmissa mála. Hann hefur búið til óvin úr Baugi, án þess að maður átti sig alveg á ástæðum þess. Kannski vill hann hefna Kolkrabbans, kannski þolir hann ekki fjármálavald sem óháð er honum - hver veit - en hitt er ljóst að Davíð hefur ekki linnt látum fyrr en Baugur er orðinn skýrt skilgreindur óvinur og allir sem andmæla Davíð þar með afgreiddir sem taglhnýtingar auðhringsins. Við höfum mörg dæmi um það hvernig Davíð leitast við að draga fram öfgamanninn í mótspilurunum sínum, knýja fram sem einstrengingslegasta afstöðu hugsanlegra mótherja í sem skýrastri andstöðu við hans eigin afstöðu fremur en að leitast við að finna þann sameiginlega flöt sem erfitt hlýtur að vera að láta sér yfirsjást á þessum tímum pragmatíkur og lausnar undan hugmyndakerfum. Þannig tókst honum með málsmeðferð sinni í framlagningu fjölmiðlafrumvarpsins að knýja þingmenn stjórnarandstöðu til andstöðu við það - þótt raunar sé þarna um að ræða mál sem þingmaður úr vinstri armi Vinstri grænna, Álfheiður Ingadóttir, hreyfði fyrst og þingmenn Samfylkingar styðja eflaust margir í hjarta sér. Forsætisráðherranum virtist henta betur að niðurlægja þingið og alla þá sem frumvarpið varðaði og vit höfðu á efninu með hinum ósvífna tímaramma sem gefinn var þingnefndum og umsagnaraðilum til að fara yfir málið og leyfði síðan stjórnarandstöðu að láta móðan mása í ræðustól, þar sem valdaleysi hennar varð æ átakanlegra með hverju orðinu. Þegar kom til kasta forseta Íslands var svo engu líkara en að Davíð Oddsson legði sig í framkróka við að ögra forsetanum til að skrifa ekki undir lögin. Á meðan forsetinn var að hugsa sig um steig Davíð sem sé fram í fjölmiðla og hamraði á valdaleysi forseta Íslands, hann gerði á alla lund lítið úr embættinu og manninum sem því gegnir - og var naumast á það bætandi - sagði að embættið hefði ekki þann málskotsrétt sem segir í stjórnarskránni að það hafi - og vísaði í einhverja gamla afmælisritsfyndni Þórs Vilhjálmssonar því til stuðnings - sagði að hann myndi sjálfur segja til um það hvort forsetinn hefði þetta vald, staðhæfði svo að einstaklingurinn Ólafur Ragnar Grímsson væri vanhæfur til að fjalla um þetta mál, og dró dóttur Ólafs inn í umræðuna. Af ráðsnilld sinni kom Davíð því sem sé þannig fyrir að Ólafur Ragnar Grímsson þurfti ekki einungis að verja það háa embætti sem hann gegnir, sjálfstæði þess og heiður, heldur og að standa vörð um fjölskyldu sína, og er þá ótalinn allur sá óhróður sem hann mátti sitja undir frá talsmönnum Davíðs. Davíð bjó þetta allt til. Hann er höfundur þjóðarþráttarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Stöndum vörð um menntun, farsæld og stuðning við börnin okkar Ása Lind Finnbogadóttir Skoðun Viltu koma að kenna? Hulda María Magnúsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun
Andstaðan við fjölmiðlalög Davíðs Oddssonar á sér margháttaðar málefnalegar ástæður enda er í þeim vegið að mikilsverðum réttindum manna í nútímasamfélagi og reynt að endurheimta þá fábreytni og stjórn á fjölmiðlamarkaði sem forsætisráðherrann virðist þakka mikið fylgi á árum áður - en þetta sást meðal annars á því að þegar þeir fáu stjórnarþingmenn sem ómökuðu sig í ræðustól alþingis í umræðum um málið reyndu að láta sér detta eitthvað í hug til rökstuðnings málinu bentu þeir einatt á það að fjölmiðlar í eigu tiltekinna aðila birtu fréttir sem andsnúnar væru landstjórninni - og því bæri að banna viðkomandi að eiga fjölmiðla. En þótt málefnalegar ástæður andstöðunnar séu mikilvægar verður því ekki neitað að þar virðist líka miklu valda afstaða fólks til Davíðs Oddssonar og stjórnarhátta hans. Eins og málum er komið í samskiptum hans og þeirra sem hann útnefnir í óvinasveit sína hverju sinni er manni til efs að honum hefði auðnast að koma illindalaust í gegnum þingið frumvarpi um öxulþunga á þjóðvegum. Bæði er seta hans á valdastóli orðin þvílík að andstæðingar rífa hár sitt og klæði í hvert sinn sem hann lyftir fingri, og eins virðist manni stundum engu líkara en að samband hans og andstæðinga hans sé orðið óheilbrigt í hæsta máta. Engu er nefnilega líkara en að maðurinn hafi einhvers konar nautn af hinu eilífa þrasi; þrífist jafnvel ágætlega í þessu andrúmslofti rifrildis, beiskju og andúðar, sem óneitanlega hlýtur að vera farið að þreyta almenning ósegjanlega. Það þarf ekki að ganga í neinar grafgötur um að Davíð nýtur valdsins, en hann virðist í æ ríkara mæli þurfa að upplifa sitt vald sem valdaleysi annarra. Þegar þannig háttar verður valdið neikvætt afl, niðurrifsafl. Ég held að ýmislegt í núverandi vandræðum okkar eigi ef til vill rót í þessari skynjun á valdinu, þessari þörf fyrir að finna vald sitt með því að hafa sigur eftir harðvítug átök - fremur en að sjá vald sitt birtast í góðum verkum. Þetta birtist á ýmsan hátt: til dæmis er sláandi sú þörf Davíðs og klíku hans að skilgreina fyrir aðra hver þeirra afstaða sé til ýmissa mála. Hann hefur búið til óvin úr Baugi, án þess að maður átti sig alveg á ástæðum þess. Kannski vill hann hefna Kolkrabbans, kannski þolir hann ekki fjármálavald sem óháð er honum - hver veit - en hitt er ljóst að Davíð hefur ekki linnt látum fyrr en Baugur er orðinn skýrt skilgreindur óvinur og allir sem andmæla Davíð þar með afgreiddir sem taglhnýtingar auðhringsins. Við höfum mörg dæmi um það hvernig Davíð leitast við að draga fram öfgamanninn í mótspilurunum sínum, knýja fram sem einstrengingslegasta afstöðu hugsanlegra mótherja í sem skýrastri andstöðu við hans eigin afstöðu fremur en að leitast við að finna þann sameiginlega flöt sem erfitt hlýtur að vera að láta sér yfirsjást á þessum tímum pragmatíkur og lausnar undan hugmyndakerfum. Þannig tókst honum með málsmeðferð sinni í framlagningu fjölmiðlafrumvarpsins að knýja þingmenn stjórnarandstöðu til andstöðu við það - þótt raunar sé þarna um að ræða mál sem þingmaður úr vinstri armi Vinstri grænna, Álfheiður Ingadóttir, hreyfði fyrst og þingmenn Samfylkingar styðja eflaust margir í hjarta sér. Forsætisráðherranum virtist henta betur að niðurlægja þingið og alla þá sem frumvarpið varðaði og vit höfðu á efninu með hinum ósvífna tímaramma sem gefinn var þingnefndum og umsagnaraðilum til að fara yfir málið og leyfði síðan stjórnarandstöðu að láta móðan mása í ræðustól, þar sem valdaleysi hennar varð æ átakanlegra með hverju orðinu. Þegar kom til kasta forseta Íslands var svo engu líkara en að Davíð Oddsson legði sig í framkróka við að ögra forsetanum til að skrifa ekki undir lögin. Á meðan forsetinn var að hugsa sig um steig Davíð sem sé fram í fjölmiðla og hamraði á valdaleysi forseta Íslands, hann gerði á alla lund lítið úr embættinu og manninum sem því gegnir - og var naumast á það bætandi - sagði að embættið hefði ekki þann málskotsrétt sem segir í stjórnarskránni að það hafi - og vísaði í einhverja gamla afmælisritsfyndni Þórs Vilhjálmssonar því til stuðnings - sagði að hann myndi sjálfur segja til um það hvort forsetinn hefði þetta vald, staðhæfði svo að einstaklingurinn Ólafur Ragnar Grímsson væri vanhæfur til að fjalla um þetta mál, og dró dóttur Ólafs inn í umræðuna. Af ráðsnilld sinni kom Davíð því sem sé þannig fyrir að Ólafur Ragnar Grímsson þurfti ekki einungis að verja það háa embætti sem hann gegnir, sjálfstæði þess og heiður, heldur og að standa vörð um fjölskyldu sína, og er þá ótalinn allur sá óhróður sem hann mátti sitja undir frá talsmönnum Davíðs. Davíð bjó þetta allt til. Hann er höfundur þjóðarþráttarinnar.