Menning

Með næstum allt á hreinu

Sýningin Með næstum allt á hreinu verður frumsýnd á Broadway 2. október næstkomandi. Verður hún að hluta til byggð á tónlistinni úr hinni vinsælu Stuðmannamynd Með allt á hreinu. Handritshöfundur og listrænn stjórnandi sýningarinnar er Stuðmaðurinn fyrrverandi Valgeir Guðjónsson. "Það var leitað til mín og þessi hugmynd þótti nægilega góð til að skoða hana," segir Valgeir. "Það efni sem þarna um ræðir er að heilmiklu leyti frá mér komið sem höfundi og það freistaði mín að ganga á hólm við það og skoða það í öðru samhengi en áður. Þetta er efni sem stendur mér svo nærri að mér finnst mjög skemmtileg áskorun að takast á við það." Aðspurður játar Valgeir að eflaust hafi verið kominn tími á sýningu sem þessa. "Efni Stuðmanna er það mikið að vöxtum að það væri hægt að gera úr því margar uppfærslur í sjálfu sér. Þessi sýning gerir fyrst og fremst út á skemmtun og grín. Þarna er leiðarljósið að skemmta fólki og leyfa því að hlusta á tónlist sem það hefur oft heyrt áður." Ekki hefur verið ákveðið að fullu hverjir muni taka þátt í sýningunni en að sögn Valgeirs verður það mjög öflugur hópur leikara og tónlistarmanna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×