Birkir Bjarnason lék sinn fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu þegar Basel gerði 1-1 jafntefli við Ludogorets í A-riðli.
Brasilíumaðurinn Jonathan Cafu kom búlgarska liðinu yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks og lengi vel stefndi allt í sigur Ludogorets.
En þegar 10 mínútur voru til leiksloka jafnaði Michael Lang metin eftir slæm mistök Vladislav Stoyanov í marki Ludogorets.
Fleiri urðu mörkin ekki og liðin sættust á skiptan hlut. Birkir lék allan leikinn á hægri kantinum.
Næsti leikur Basel í Meistaradeildinni er gegn Arsenal á Emirates 28. september.
