Viðskipti innlent

Ver­tíðin gæti skilað fjöru­tíu milljörðum

Árni Sæberg skrifar
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar og formaður SFS.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar og formaður SFS. Vísir/arnar

Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi telur að komandi loðnuvertíð geti skilað útflutningstekjum upp á 35 til fjörutíu milljarða króna. Hundruð manna muni fá vinnu í sjávarútvegsplássum víða um land en þó í aðeins um sex vikur.

Hafrannsóknastofnun leggur til að rúm 197 þúsund tonn af loðnu verði veidd á þessu fiskveiðiári. Upphaflega lagði hún til innan við fimmtíu þúsund tonna hámarksafla. Hluti íslenskra útgerða í kvótanum mun nema um 150 þúsund tonnum.

Gunnþór Ingvason, formaður SFS og forstjóri Síldarvinnslunnar, ræddi ráðgjöfina við Kristján Má Unnarsson í beinni útsendingu í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Þetta eru gleðitíðindi, að við séum að fá fimmföldun á okkar kvóta. Þannig að þetta er ánægjulegt og við erum að sjá fram á að geta framleitt núna inn á okkar verðmætustu markaði, inn á Asíumarkað og Austur-Evrópu og svo loðnuhrogn. Við höfum ekki verið að sinna þessum mörkuðum af neinu viti síðustu ár vegna loðnuskorts þannig að það er gríðarlega mikilvægt að ná að viðhalda þessum mörkuðum og fá þetta inn núna.“

Tómir markaðir

Loðnan fari inn á tóma markaði og reikna megi með því að gott verð fáist fyrir loðnuna þar. Miðað við bráðabirgðaráðgjöf Hafró hafði verið reiknað með því að loðnuvertíð gæti skilað um tíu milljörðum í útflutningstekjur.

En þessi nýju tíðindi, hvað þýðir þetta í verðmætum að þínu mati?

„Ég myndi skjóta á svona 35 til fjörutíu milljarða vertíð og það munar um minna.“

Fer hvorki í mjöl né lýsi

Veiðiráðgjöfin þýði þó ekki að uppsjávarútgerðarmenn stími beint út á miðin heldur muni þeir bíða eftir því að loðnan fyllist hrognum.

„Ég held að menn bíði nú eftir að hrognfyllingunni og að þetta fari í okkar verðmætustu flokka. Það er alveg ljóst að þessi kvóti er ekki það mikill að það sé svigrúm til þess að fara að veiða loðnu með beinum hætti í fiskimjöl og lýsi, þannig að menn munu bíða eftir hrognfyllingu og manneldismörkum.“

Hvað þýðir þetta fyrir stemninguna í loðnubyggðum á landsvísu?

„Ég held þetta sé náttúrulega gríðarleg lyftistöng. Það eru auðvitað hundruð manna sem fá vinnu þennan eina og hálfan mánuð sem þetta mun taka okkur að koma þessu í verðmæti. Það eru margir sem fá sneið af kökunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×