Viðskipti innlent

Fast­eigna­gjöld hækki í krónum þrátt fyrir lækkun fast­eigna­skatts

Lovísa Arnardóttir skrifar
Á Akureyri stóð fasteignaskattur í stað en fráveitugjöld voru hækkuð um 14,5 prósent.
Á Akureyri stóð fasteignaskattur í stað en fráveitugjöld voru hækkuð um 14,5 prósent. Vísir/Viktor Freyr

Fasteignaskattprósenta lækkaði hjá meirihluta sveitarfélaga milli áranna 2025 og 2026. Hjá rúmlega þriðjungi sveitarfélaga er fasteignaskattasprósenta óbreytt milli ára en ekkert sveitarfélag hækkar. Þrátt fyrir það hækka fasteignagjöldin í langflestum tilvikum í krónum talið vegna hærra fasteignamats. 

Þetta kemur fram í úttekt verðlagseftirlits ASÍ á fasteignagjöldum 53 sveitarfélaga en þau samanstanda af fasteignasköttum, vatnsgjöldum, fráveitugjöldum og lóðaleigu. Þar kemur fram að hækkanir á fasteignagjöldum séu í mörgum tilfellum umfram hækkun verðlags.

Í samantekt ASÍ um greininguna kemur fram að í mörgum tilfellum hafi sveitarfélög lækkað álagningarprósentu til að koma til móts við hækkandi fasteignamat. Af 53 stærstu sveitarfélögum landsins hafi fasteignaskattprósentan lækkað í 33 sveitarfélögum og verið óbreytt í 19.

Fasteignaskattar standi í stað á Akureyri

Þá segir í samantekinni að sjá megi samanlögð áhrif meðalhækkunar á fasteignamati og breytinga á álagningaprósentu fasteignaskatts í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins milli áranna 2025 og 2026 á grafinu hér að neðan.

Í Akureyrarbæ standi fasteignaskattar svo til í stað, en í hinum 14 hækka þeir um allt að 12,6 prósent, mest á Seltjarnarnesbæ.

Samkvæmt greiningu ASÍ er vatnsgjald ýmist reiknað sem fast gjald, fermetragjald eða sem hlutfall af fasteignamati. Í þeim sveitarfélögum sem taka fast og/eða fermetragjald hafði gjaldið hækkað í níu af 17 um 3,2-4,5 prósent.

Þar sem vatnsgjald er innheimt sem hlutfall fasteignamats var álagningarprósentan lækkuð í 9 af 34 sveitarfélögum en hækkuð í tveimur: Þingeyjarsveit og Vogum. Í Vogum fór vatnsgjaldið úr 0,08 prósentum af fasteignamati upp í 0,11 prósent. Fasteignamat íbúðareigna hækkaði um 11,8 prósent í Vogum í ár. Alls hækkaði vatnsgjaldið þar í krónum talið því um helming.

Hækkuðu fráveitugjald um 14,5 prósent

Fráveitugjald er, líkt og vatnsgjald, ýmist reiknað sem fast gjald, fermetragjald eða sem hlutfall af fasteignamati. Í þeim sveitarfélögum sem taka fast og/eða fermetragjald hækkuðu þrjú af sex sveitarfélögum gjaldið um 4,5 prósent.

Akureyrarbær hækkaði fráveitugjald um 14,5 prósent. Þar sem fráveitugjald er innheimt sem hlutfall fasteignamats var álagningarprósentan lækkuð í 14 af 44 sveitarfélögum en hækkuð í Vogum, samkvæmt greiningu ASÍ. Þar hækkaði fráveitugjaldið úr 0,085 prósentum af fasteignamati í 0,11 prósent.

Erfitt er að átta sig þegar staðan er misjöfn milli hverfa

Í samantekt ASÍ segir að þar sem álagningarhlutfallið er eitt hið sama innan sveitarfélaga en þróun fasteignamats breytileg milli hverfa eða jafnvel milli einstakra fasteigna geti verið áskorun fyrir einstaklinga að átta sig á breytingunum.

Þegar skoðaðar séu dæmigerðar 75 fermetra fjöleignaríbúðir í fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins megi sjá að aðeins á Selfossi hafi samanlögð fasteignagjöld lækkað milli ára.

Sé horft á sambærilegar eignir í Garðabæ, austurbæ Kópavogs, í Vallarhverfi í Hafnarfirði og í Mosfellsbæ nemi hækkun fasteignagjalda á bilinu 2,8 til 3,5 prósentum, eða sem nemur 4.866 til 8.287 krónum á dæmigerða 75 fermetra íbúð. Hækkun geti þó hæglega hlaupið á tugum þúsunda en á Akranesi, í Reykjavík (tjörn til Snorrabrautar), Borgarnesi og á Sauðárkróki hækkuðu fasteignagjöld á bilinu 7,1 til 9,5 prósent, eða sem nemur 14.461 krónu á Akranesi til 29.392 króna á Sauðárkróki. Mest hækkuðu fasteignagjöld á Reyðarfirði (Fjallabyggð), um 17,3 prósent, eða sem nemur 40.275 krónum, en hækkunin skýrist eingöngu af breyttu fasteignamati.

Til samanburðar hækkaði vísitala neysluverðs um 4,5% árið 2025 en í níu af fimmtán ofangreindum sveitarfélögum hafa fasteignagjöld á 75% fjölbýliseigna hækkað meira en sem nemur verðbólgu. Skoða má tölur fyrir meira en hundrað hverfi í yfir fimmtíu sveitarfélögum á verdlagseftirlit.is/fasteignagjold.

Fasteignagjöld í sérbýli eru sambærileg

Fasteignagjöld fyrir sérbýli hafa þróast með sambærilegum hætti. Þegar dæmigerð 120 fermetra sérbýli eru skoðuð í fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins eru tvö dæmi um lækkun og aðeins tvö um hækkun. Í ellefu sveitarfélögunum eru hækkanir á fasteignagjöldum dæmigerðs sérbýlis umfram almenna hækkun verðlags samkvæmt greiningu ASÍ.

Mest er hækkunin á Reyðarfirði, 17,3 prósent. Athygli vekur að fasteignagjöld 120 fermetra sérbýlis á Egilsstöðum lækka mest af þeim 15 dæmum sem skoðuð voru, en fasteignagjöld greidd af 75 fermetra fjölbýli á Egilsstöðum hækka næstmest. Samkvæmt greiningu ASÍ er þetta vegna mikillar hækkunar fasteignamats á fjölbýli á Egilsstöðum og samhliða lækkunar álagningarprósentu í Múlaþingi.

Verðlagseftirlitið skoðaði 20 dæmi um hækkanir á fasteignagjöldum frá árinu 2023, miðað við dæmigerða íbúð á hverju svæði, það er þróun fasteignagjalda á meðalstærðum í hverju hverfi. Samkvæmt greiningu mátti finna dæmi um verulegar hækkanir fasteignagjalda á þessu tímabili. Mest hækkuðu fasteignagjöld á 75 fermetra íbúð í fjölbýli á Egilsstöðum, um 62 prósent, á 100 fermetra íbúð í Bolungarvík um 55 prósent og á 100 fermetra sérbýli í Vogum um 52 prósent.

Í stærri sveitarfélögum eru einnig dæmi um hækkanir fasteignagjalda á bilinu 27 til 34 prósent frá árinu 2023 fyrir 75 fermetra fjölbýlisíbúð, til dæmis í Reykjavík (vestan Bræðraborgarstígs), á Seltjarnarnesbæ og á Selfossi. Breytingar geta verið ólíkar milli hverfa sökum mismunandi þróunar fasteignamats.

Um úttektina

Í úttektinni skoðaði Verðlagseftirlitið fasteignagjöld, sem samanstanda af fasteignaskatti, lóðarleigu, fráveitugjaldi og vatnsgjaldi. Samantektin byggir á gögnum um sveitarfélög með fleiri en 300 íbúa, samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Álagningarreglur ársins 2026 voru sóttar af vefsíðum sveitarfélaga.

Fasteignaskattur ræðst af samspili skattprósenta og fasteignamats. Samanburður getur verið vandkvæðum bundinn, sem dæmi eru skattprósentur gjarnan hærri á svæðum þar sem fasteignamat er lægra. Í úttektinni er miðað við fasteigna- og lóðamat í 234 hverfum í 62 sveitarfélögunum en gögnin eru fengin frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Úttektinni fylgir reiknivél þar sem reikna má út fasteignagjöld fyrir komandi ár, bera þau saman milli hverfa og sveitarfélaga og skoða þróun þeirra milli ára og milli mismunandi svæða. Hana má finna á vef Verðlagseftirlits ASÍ.


Tengdar fréttir

Allt að 1500 króna munur á jólabókunum milli verslana

Jólabækurnar eru oftast ódýrastar í Bónus en þar er líka minnsta úrvalið. Ef lágvöruverslanirnar Bónus og Nettó eru undanskildar, var lægsta verðið oftast að finna í Bóksölu Stúdenta. Allt að 1500 krónu munur getur verið á kaupverði bóka milli verslana.

Hægt að spara háar fjárhæðir í jólainnkaupum

Hagstæðast er að gera jólainnkaupin í Prís samkvæmt verðlagskönnun ASÍ. Hagfræðingur samtakanna ráðleggur fólki að gera verðsamanburð áður en ráðist er í stórinnkaup því oft geti munað um háar fjárhæðir. Súkkulaði hækkar mest milli ára.

Verðlag lægst í Prís á átta algengum jólavörum

Samkvæmt mælingum verðlagseftirlitsins í desember mælist verðlag lægst í Prís á átta algengum jólavörum sem voru skoðaðar. Mandarínum, laufabrauði, smjör og rjóma, til dæmis. Einnig var kannað verð á konfekti, gosi og fleiri vörum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×