Enski boltinn

„Sigur­mark undir lokin er full­komið fyrir okkur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amine Adli og Marcos Senesi fagna sigurmarki Bournemouth en Adli skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.
Amine Adli og Marcos Senesi fagna sigurmarki Bournemouth en Adli skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Getty/Ryan Pierse

Það var gríðarlegur fögnuður hjá Bournemouth-mönnum í kvöld eftir að þeir tryggðu sér dramatískan 3-2 sigur á Liverpool með marki í uppbótartíma.

Bournemouth hafði misst niður 2-0 forystu en tókst að skora sigurmark á síðustu stundu.

Þetta var nauðsynlegur sigur fyrir Bournemouth sem hefur nú náð í sjö stig í síðustu þremur deildarleikjum og er að komast aftur í gang eftir að hafa leikið ellefu leiki í röð frá byrjun nóvember til byrjun janúar án þess að fagna sigri í ensku úrvalsdeildinni.

Marco Senesi, varnarmaður Bournemouth, var í samtali við Sky Sports eftir leik og hann var spurður um hvernig tilfinning það er að vinna á síðustu stundu:

„Satt best að segja, ótrúlegt. Mér fannst við spila mjög góðan fyrri hálfleik og komast í 2-0, svo skoruðu þeir og jöfnuðu leikinn. Sigurmark undir lokin er fullkomið fyrir okkur,“ sagði Marco Senesi.

„Ótrúlegt því við þurftum á sigri að halda. Öll liðin fyrir neðan okkur eru að safna stigum, svo það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að vinna í dag gegn virkilega góðu liði eins og Liverpool. Þeir eru að standa sig frábærlega og þetta var góður leikur og í lokin náðum við í úrslitin,“ sagði Senesi.

„Liðið stendur saman og leggur sig fram þótt við séum með nokkur meiðsli og mikilvægir leikmenn séu fjarverandi. Allir stíga upp og við náðum í mikilvæg úrslit í dag,“ sagði Senesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×