Enski boltinn

Óttast að Grealish verði lengi frá

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jack Grealish hefur endurnýjað lífdaga sína hjá Everton en gæti nú þurft að sitja lengi uppi í stúku. 
Jack Grealish hefur endurnýjað lífdaga sína hjá Everton en gæti nú þurft að sitja lengi uppi í stúku.  EPA/ADAM VAUGHAN

Stuðningsmenn Everton bíða með öndina í hálsinum eftir niðurstöðum úr rannsóknum vegna meiðsla Jack Grealish, stoðsendingahæsta leikmanns liðsins á tímabilinu. Óttast er að hann verði lengi frá.

Hinn þrítugi Grealish spilaði allan leikinn en meiddist í 1-0 sigri Everton gegn Aston Villa síðasta sunnudag. Hann kenndi sér meins í fætinum og talið er að um álagsbrot sé að ræða.

Næstu daga mun kantmaðurinn knái gangast undir rannsóknir hjá sérfræðingum, sem munu leiða alvarleika meiðslanna í ljós.

Grealish kom til Everton á láni frá Manchester City í leit að meiri spiltíma og með vonir bundar við að komast í hópinn hjá enska landsliðinu fyrir HM 2026.

Hann hefur verið einn besti leikmaður liðsins, sem situr í 10. sæti deildarinnar, lagt upp sex mörk og skorað önnur tvö í tuttugu leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Næsti leikur Everton verður við Leeds á mánudaginn kemur, 26. janúar, en þar mun Everton endurheimta Iliman Ndiaye og Idrissa Gana Gueye, mikilvæga miðjumenn sem urðu Afríkumeistarar með Senegal á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×