Enski boltinn

Hjólhestaspyrna táningsins tryggði Brighton stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brighton-maðurinn Charalampos Kostoulas jafnar hér metin í 1-1 með stórglæsilegri hjólhestaspyrnu.
Brighton-maðurinn Charalampos Kostoulas jafnar hér metin í 1-1 með stórglæsilegri hjólhestaspyrnu. Getty/Justin Setterfield/

Örþreyttum gestum tókst að halda einu stigi en ekki að taka með sér öll þrjú stigin þökk sé snilldartilþrifum átján ára grísks landsliðsmanns.

Nágrannarnir á suðurströndinni sættust á eitt stig hvort í lokaleik 22. umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni en Brighton & Hove Albion og Bournemouth gerðu þá 1-1 jafntefli.

Bournemouth komst yfir í fyrri hálfleiknum og hélt lengi forystunni en hápunktur leiksins var stórglæsileg hjólhestaspyrna hins átján ára Grikkja Charalampos Kostoulas. Hún tryggði heimamönnum stigið.

Jan Paul van Hecke vann skallaeinvígi eftir sendingu inn í teiginn. Kostoulas var með bakið í markið en tók við boltanum á bringuna til að koma sér í stöðu og skoraði síðan með stórkostlegri hjólhestaspyrnu.

Stórkostlegt augnablik í annars tíðindalitlum leik. Jöfnunarmark Brighton kom á fyrstu mínútu uppbótartímans en þeim tókst ekki að tryggja sér sigur þótt tíu mínútum hefði verið bætt við.

Brighton er í tólfta sæti með 30 stig, stigi á eftir Fulham en þremur stigum á undan Bournemouth sem er í fimmtánda sætinu.

Umdeilt atvik varð á 28. mínútu í fyrri hálfleik. Amine Adli féll þá í teignum eftir að hafa verið á undan Bart Verbruggen markverði og komist í boltann. Paul Tierney dómari dæmdi þó ekki vítaspyrnu heldur benti hann í hina áttina og gaf Adli gult spjald fyrir leikaraskap. Sá dómur stóð þó ekki.

Myndbandsdómarar skoðuðu nefnilega atvikið betur og niðurstaðan var að gula spjaldið var dregið til baka og víti dæmt. Marcus Tavernier tók vítaspyrnuna og setti boltann af öryggi hægra megin við Verbruggen, sem fór í rétt horn en réð ekki við hnitmiðaða spyrnu.

Það stefndi lengi í að þetta yrði sigurmarkið en leikmenn Bournemouth voru alveg búnir á því undir lokin og tókst ekki að halda út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×