Enski boltinn

Nýr þjálfari Chelsea minnti leik­menn á að þvo sér um hendur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Liam Rosenior vill ekki sjá fleiri leikmenn lenda í veikindum.
Liam Rosenior vill ekki sjá fleiri leikmenn lenda í veikindum. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Liðsfundur var haldinn í herbúðum Chelsea í gær þar sem þjálfarinn Liam Rosenior minnti leikmenn og starfsfólk félagsins á að sinna sóttvörnum, til að berjast gegn útbreiðslu vírussins sem er að hrella liðið.

Framherjinn Liam Delap og kantmaðurinn Jamie Gittens voru fjarverandi vegna veikinda í 3-2 tapi Chelsea gegn Arsenal í enska deildabikarnum í fyrrakvöld. 

Þeim félögum hefur verið sagt að halda sig heima og ekki mæta aftur á æfingar fyrr en þeir hafa náð fullum bata.

Sumt starfsfólk félagsins hefur einnig smitast af veirusýkingunni sem svífur um Stamford Bridge og mætti ekki til vinnu í dag.

Gittens og Delap gleymdu kannski að spritta sig. Richard Pelham/Getty Images

Liam Rosenior, nýráðinn þjálfari Chelsea, sagði Delap og Gittens ekki geta tekið þátt í næsta leik liðsins gegn Brentford á laugardaginn.

„Læknarnir okkar eru að gera allt sem þeir geta til að stöðva útbreiðslu þess sem lítur út fyrir að vera vírus, því eitthvað starfsfólk hefur smitast líka. Við héldum fund þar sem við minntum leikmenn á að þvo sér um hendur og sinna þessum helstu sóttvörnum. Það er mjög mikilvægt og vonandi náum við stjórn á þessu því það er þétt prógramm framundan hjá okkur. Við þurfum að hafa alla heila heilsu“ sagði þjálfarinn.

Chelsea mætir síðan Pafos í Meistaradeildinni næsta þriðjudag en það er leikur sem liðið verður að vinna til að eiga möguleika á að enda í átta efstu sætunum og forðast umspil.

Gleðifréttir bárust einnig úr herbúðum Chelsea í gær því Cole Palmer og Reece James sneru aftur til æfinga með liðinu eftir að hafa glímt við meiðsli. Þá er Romeo Lavia byrjaður að æfa aftur, en ekki með liðinu, eftir tveggja mánaða fjarveru vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×