Fótbolti

Logi út af í hálf­leik í bikartapi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Logi er einn þriggja leikmanna Samsunspor sem var skipt af velli í hálfleik í kvöld.
Logi er einn þriggja leikmanna Samsunspor sem var skipt af velli í hálfleik í kvöld. Ahmad Mora/Getty Images

Logi Tómasson og félagar í Samsunspor féllu úr leik í undanúrslitum tyrkneska ofurbikarsins í fótbolta í kvöld. Liðið tapaði 2-0 fyrir Fenerbahce.

Fenebahce náði forystunni eftir aðeins fjögurra mínútna leik þökk sé marki Íslandsbanans Kerem Akturkoglu. Sá skoraði fjögur mörk í tveimur leikjum við Ísland í Þjóðadeildinni haustið 2024.

Staðan var 1-0 í hálfleik en eitthvað var Thomas Reis, þjálfari Samsunspor, ósáttur við sína menn. Hann skipti þremur leikmönnum af velli í hléi, þar á meðal Loga.

Kólumbíski framherjinn Jhon Duran skoraði annað mark Fenebahce um miðjan síðari hálfleik og þar við sat. Að vísu fékk Antoine Makoumbou, samherji Loga, að líta rautt spjald áður en yfir lauk.

Fenebahce fer því í úrslit ofurbikarsins og mætir þar erkifjendum sínum og grönnum í Galatasaray á laugardaginn.

Galatasaray vann 4-1 sigur á Trabzonspor í hinum undanúrslitaleiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×