Erlent

Selenskí skipar nýjan starfs­manna­stjóra í kjöl­far spillingarmáls

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Kyrylo Búdanov hefur verið æðsti maður í leyniþjónustunni HUR.
Kyrylo Búdanov hefur verið æðsti maður í leyniþjónustunni HUR. AP

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hefur skipað nýjan starfsmannastjóra í stað Andríjs Jermak. Sá síðarnefndi sagði af sér eftir að hafa verið bendlaður við umfangsmikið spillingarmál.

Nýi starfsmannastjórinn heitir Kyrylo Búdanov og var áður æðsti maður í úkraínsku leyniþjónustunni HUR sem hefur meðal annars borið ábyrgð á fjölda loftárása djúpt inn í Rússland. Selenskí segist sömuleiðis munu skipta út varnarmálaráðherra sínum. Denys Sjmyhal víkur fyrir Mykhajlo Fedorov.

Forveri hans Andríj Jermak var gífurlega áhrifamikill í innsta hring úkraínsku ríkisstjórnarinnar og hefur verið mjög náin Selenskí frá því að innrás Rússa hófst snemma árs 2022. Hann hefur sömuleiðis farið fyrir samninganefnd Úkraínumanna í Bandaríkjunum.

„Á þessum tímapunkti þarf Úkraína að leggja meiri áherslu á öryggismál, þróun varnar- og öryggissveita Úkraínu, sem og á diplómatíska þáttinn í samningaviðræðum. Kyrylo hefur sérfræðiþekkingu á þessum sviðum og nægan styrk til að skila árangri,“ segir Selenskí forseti á samfélagsmiðlum.

Staða starfsmannastjóra forseta í Úkraínu hefur sögulega verið mjög valdamikil. Samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins hafði starfsmannastjórinn á forseta skrifstofu Úkraínu nánast jafn mikil völd og forsetinn sjálfur á fyrsta áratug þessarar aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×