Fótbolti

Versta tíma­bil Vinícius í mörg ár og samninga­við­ræður sigla í strand

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Vinícius Juníor hefur ekki átt sjö dagana sæla. 
Vinícius Juníor hefur ekki átt sjö dagana sæla.  Berengui/vi/DeFodi Images via Getty Images

Vinícius Juníor hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann endaði í öðru sæti í kjörinu um Gullboltann á síðasta ári. Stuðningsmenn Real Madrid virðist vera að gefast upp á honum og félagið hefur lokað á samningaviðræður við hann.

Vinícius hefur ekki skorað í síðustu fjórtán leikjum fyrir Real og í heildina hefur hann aðeins skorað fimm mörk á tímabilinu.

Sem jafngildir jafngildir einu marki á hverjum 356 mínútum, en svo slök tölfræði hefur ekki sést hjá Vinícius síðan á fyrstu tveimur tímabilunum hjá Real Madrid eftir að hann gekk til liðs við félagið átján ára gamall.

Síðan spænski miðjumaðurinn Rodri vann Gullboltann hefur Vinícius aðeins skorað 19 mörk í 67 leikjum.

Fjögur þeirra marka voru skoruð í fyrstu tveimur leikjunum eftir verðlaunaafhendinguna sem Vinícius mætti ekki á. Þá héldu stuðningsmenn að hann ætlaði að svara vel fyrir sig en raunin hefur orðið önnur.

Svo slæm þykir spilamennska hans upp á síðkastið að stuðningsmenn Real Madrid bauluðu hástöfum þegar hann var tekinn af velli í 2-0 sigri gegn Sevilla á dögunum. Rúmlega ári eftir að sömu stuðningsmenn klöppuðu fyrir hverri gabbhreyfingu sem hann gerði.

Vinícius svaraði fyrir sig með því að breyta forsíðumynd sinni á Instagram, úr mynd af honum í Real Madrid treyju og yfir í mynd af honum í landsliðstreyjunni.

Samningur hans við Real Madrid gildir út næsta tímabil, til sumarsins 2027.

Viðræður um framlengingu hafa verið í gangi lengi en Vinícius fer fram á sömu laun og Kylian Mbappé, sem hefur slegið skugga yfir Vinícius og skorað jafnmikið á þessu ári og Cristiano Ronaldo gerði á sínum tíma.

Miðað við frammistöðu síðustu mánuði eru forráðamenn félagsins hins vegar ekki sannfærðir.

Samningaviðræðurnar hafa því siglt í strand en verða teknar upp að nýju eftir HM 2026, sem er sagður síðasti séns fyrir Vinícius að sanna að hann eigi skilið sömu laun og Mbappé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×